06 Jul

Ég hef tekið saman 7 atriði varðandi hundaþjálfun sem þú vilt leggja á minnið. Listanum er ætlað að gera þig að betri hundaeiganda og enn betri hundaþjálfara.

Í upphafi skal endinn skoða

Hundaþjálfun á að hefjast sama dag og hvolpurinn eða hundurinn kemur inn á heimilið. Enn betra er ef fólk er búið að setjast niður og hugsa fram í tímann og sjá fyrir sér draumahundinn sinn og hvernig hann hagar sér.

Hvernig á hundurinn þinn að haga sér í framtíðinni? Áður en hlýðniþjálfunin hefst fyrir alvöru sjáðu fyrir þér hvernig hundurinn þinn verður í framtíðinni að lokinni þjálfun – hvernig hund langar þig í, hvaða æfingar er mikilvægt að hann kunni, hvaða hlýðniæfingar eða trix telur þú að verði skemmtilegt að kenna honum. Settu þér markmið áður en vinnan hefst því með skýr markmið og stefnu ertu líklegri til að ávaxta í samræmi við væntingar.

Hundaþjálfun er ekki þvingun, það er ekki verið að neyða hundinn í mót sem hann vill ekki. Með hundaþjálfun er verið að eyða tíma saman og móta samskiptamáta milli tveggja tegunda sem tala ekki sama tungumálið og hafa ekki sömu samskiptareglur. Hundaþjálfun er skemmtileg því í gegnum leik og þrautir læra hundur og maður að skilja og treysta hvor öðrum.

TRAUST

Með því að búa til tjáningarform og sameiginlegt tungumál með hundinum okkar í gegnum hlýðnina myndum við traust. Til þess að skapa það þarf hlýðnina ALLTAF að vera skemmtileg og án allra þvingana eða skamma. Hundurinn má aldrei upplifa gremju af okkar hálfu, í hann má aldrei grípa eða slá til hans eða þvinga á nokkurn hátt.

Hundur og eigandi eiga að vera afslappaðir og njóta samverunnar. Hundurinn finnur vel áhuga (og áhugaleysi) ykkar og smitast af skilaboðunum sem þið sendið frá ykkur. Ef þið missið áhugann fyrir æfingunni látið staðar numið og haldið áfram síðar.

Munið að hafa gaman af æfingunni, alltaf.

STRESS – jákvætt og neikvætt

Stress er neikvæður þáttur þegar kemur að hlýðniþjálfun og viljum við að hundarnir séu stresslausir við hlýðniþjálfunina. Athugið þó að þegar talað er um stress í hundaþjálfun þarf það ekki alltaf að vera neikvæður þáttur. Stress má t.d. sjá á öndun hunda, eyrnastöðu, munnstöðu og jafnvel augum. Hér er á ég við stress í merkingunni óöruggi. Móðir og másandi hundar / órólegir eru stressaðir hundar, líka hundar sem vaða úr einni æfingu í aðra til þess að reyna að þóknast eiganda sínum. Stress er oft tilkomið vegna misskilnings, samskiptamátinn er ekki orðinn skýr og hvorki hundur né maður búnir að ná fullkomnum tökum á nýja sameiginlega tunugmálinu.

Það er okkar eigendanna að lágmarka stressið í hundinum, besta leiðin til þess er að vera ekki með óraunhæfar kröfur til hundsins. Hundur sem er látinn gera æfingar sem hann skilur ekki verður stressaður. Þess vegna byrjum við með mjög stuttum æfingum og fáum endurtekningum sem síðan lengjast smám saman í gegnum æfingarferlið. Best leiðin til að takast á við stress er að 1) vera með skýr æfingamarkmið 2) vera með skýr skilaboð í æfingunum 3) láta sem maður sjái ekki stress hegðunina (ekki skamma fyrir hana) bara halda sínu striki.

Stress hegðunin sem var lýst hér á undan getur líka passað við glaðan hund sem hlakkar til verkefnisins sem fram undan er. Það er jákvætt stress, hundurinn er másandi og brosandi og hoppandi glaður. Það þýðir að hann veit að það er gaman framundan og að hann ætlar að taka þátt. Það besta sem þú gerir í þessu tilfelli sem hundaeigandi er að láta sem þú sjáir ekki þessa hegðun. Hún er eðlileg og alls ekki óæskileg, en óæskilegt væri að ýta undir hana.

Ef þú temur þér að tala við hann í ögrandi/æstum tón meðan á þessari hegðun stendur, ert að henda í hann dóti, sveifla í honum taumnum eða gera annað sem æsir upp hundinn mun hegðunin stigmagnast og jafnvel verða að neikvæðu stressi. Hundurinn getur orðið stjórnlaus með tímanum, byrjað að gelta og hætt að ráða við sig af æsingi og til lengdar er enginn eigandi sem nennir því og þá myndast togstreita og pirringur. Spenntan hund á frekar að reyna að róa, hægt er að hægja á hreyfingum sínum, róa eigin huga og senda frá sér þannig róandi orku. Einnig er hægt að taka hundinn úr aðstæðunum ef hann sýnir óstjórnlega kæti til dæmis ef verið er að undirbúa einhverja ferð, farið með hundinn strax í bílinn og týna svo til búnaðinn sem þarf með. Leitið lausna til að minnka þann tíma sem hundurinn er að keyra upp eigið stress.

Mikilvægt er að kenna einungis eina æfingu í einu, þegar við erum orðinn viss um að hundurinn skilur hana þá kennum við næstu – þetta á sérstaklega við um hvolpa og unga hunda. Við blöndum ekki saman æfingum fyrr en mikið síðar á ferlinu. Ein æfing er gerð í einu. Algengt er að hundar sem kunna eitt “trix” reyni að sýna það til að þóknast okkur þegar við erum að kenna nýtt “trix”. Ekki skamma hann fyrir það (slíkt myndi auka líkur á stressi) látið bara sem þið sjáið það ekki, bíðið róleg og haldið síðan áfram með æfinguna.

SKIPANIR

Skipanir í hlýðni geta verið margskonar. Hægt er að gefa skipun með orðum, hljóðum, flautu, handahreyfingum, líkamsbeitingu og fleiru. Veljið það sem ykkur finnst þægilegast að nota. Einnig er hægt að blanda saman aðferðum. Gott er að hafa í huga að í framtíðinni vill maður mögulega geta gefið hundinum skipun úr fjarlægð (jafnvel í gegnum margmenni) án þess að mikið beri á.

Hér kem ég aftur að orðlagi, skipun er ekki þvingun. Skipun getur verið bón, skipun er beiðni frá okkur til hundsins. Ég hef tamið mér að nota stutt orð sem skipun, skýr orð og reyni að forðast í upphafi að nota of lík orð fyrir ólíkar athafnir sbr. sestu og leggstu. Ég nota mikið orð og handabendingar saman sem hjálpar við stýringu úr fjarlægð seinna meir. Þá finnst mér gott að gefa ákveðnar skipanir í upphafi en færi mig svo út í lágstemmdari skipanir og með tímanum hvíslskipanir.

Úr fjarlægð komast orð síður til skila en handahreyfing og/eða flauta myndi gera það. Þetta er því mjög algengt að nota í þjálfun fjárhunda, fíkniefnaleitar-, sprengjuleitarhunda og við þjálfun heyrnarlausra hunda og jafnvel fyrir heyrnarlausa/mállausa hundaeigendur.

VERÐLAUN

Verðlaun fyrir hlýðni (og í raun alla þjálfun) byggir svolítið á áhuga hundsins.
Matur/nammi eru vinsæl og þægileg verðlaun og hefur reynst mér best því með réttu nammi hefur æfingatíminn styst. Það er að segja hundurinn er fljótari að skilja verkefnið og skilaboðin mín því matargjöf eru svo skýr skilaboð um að rétt hafi verið brugðist við . Matarverðalun henta afar vel í hlýðniæfingum sem fela í sér að hundurinn þarf að vera kyrr í skipuninni í smá tíma t.d. sitja, liggja, bíða ofl.

Hægt er að nota hundamat, hundanammi, slátur, harðfisk, kjöt, pylsur og hvað eina sem hundinum finnst gott. Ég hef mest notað nammi sem ekki smitar í föt mín og er ekki of lyktarmikið svo ungur hundur missi ekki athyglina frá verkefninu. Ef hundurinn er sólginn í mat þá eru matarverðlaun tilvalin en það á ekki við um alla hunda. Í matarverðlaunum þarf að passa að bitarnir séu ekki mikið stærri en svo að hundurinn missi ekki athyglina af æfingunni yfir í það að fara að tyggja mikið. Á seinni stigum má skipta út namminu og dótinu fyrir klapp eða munnlegt hrós.

Sífellt algengara er að þjálfa hunda með klikker þjálfun. Ég hef ekki nýtt mér það ennþá og eingöngu lítillega kynnt mér notkun klikkers. Klikker er lítið tæki sem gefur frá sér smell-hljóð. Kllikkerinn er notaður til að staðfesta rétta hegðun og er kynntur til sögunnar með nammi/góðgæti. Klikker er notaður meðan verið er að kenna nýja hegðun og merkja að hundurinn sé að gera rétt, svo er notkun hans hætt þegar hundurinn hefur lært það sem var verið að kenna honum. Þeir sem hafa tilenkað sér klikkerinn segja hann hjálpa við að merkja rétta hegðun fyrr en ella.

Munið að þjálfun er einstaklingsbundin og líka valið á verðlaunum. Þið eruð teymi svo verðlaunin sem valin eru þurfa að henta báðum aðilum. Hægt er að nota dót (leik) sem verðlaun en þó er það óhentugt í tilfellum eins og að setjast/leggjast þar sem ætlast er til að hundurinn sé kyrr í skipuninni í smá tíma en dót er tilvalið til dæmis til að kenna hundi að þekkja nafnið sitt og við innkallsæfingar. Dót er frábær leið til að verðlauna hundi fyrir að leiða hugann frá truflun og aftur að eiganda sínum. Leikur er oftast lengri verðlauni tímalega og því meiri verðlaun en margt annað.

Best er að smám saman draga úr verðlaunum en sleppa þeim þó aldrei alveg því það kemur alltaf upp sá tími að við erum ekki með annað hvort nammi eða dót og það er líka eðlilegt fyrir þroskaðan hund að hlýða beiðni án þess að það feli í sér endalaust hrós, þá eru skipanirnar búnar að festa sér sess í hans huga sem hegðunarmynstur og krefst ekki sérstakrar viðurkenningar.

Snjallt getur verið að nota verðlaun á víxl. Þegar hundurinn veit ekki hverju hann á von á sem verðlaunum má gera ráð fyrir að hann sækist frekar í að koma til ykkar og hlýða. Sama á við um þroskaða hunda þegar verðlaun koma á óreglulegum tímum og eru mismikil þá detta þeir síður í að hætta að hlýða eða hlýða seint og illa.

TÍMASETNINGAR

Mikilvægast af öllu er að verðlaunin séu rétt tímasett svo hundurinn tengi orsök og afleiðingu. Verðlaun eiga að koma á sömu sekúndu helst og skipuninni er hlýtt. Verðlaun sýna ótvírætt að hegðunin var vel liðin.

Tímasetning skipunar er að sama skapi mjög mikilvæg. Aðeins skal gefa skipun ef henni verður örugglega hlýtt. Hundur sem er með athyglina festa á einhverju öðru en þeir er ekki líklegur til að svara skipun. Bíddu þar til hann sýnir minni einbeitingu við það sem hann er að gera og notaðu þá tækifærið. Forðist síendurteknar skipanir og óþarfa blaður við hundinn meðan á einbeitingu stendur. Hann skilur kannski ekki hvað við segjum en hann skilur tóninn í röddinni og líkamstjáninguna og er fljótur að skynja ef það er að myndast gremja, þá er síst girnilegt að koma til ykkar eða hlýða ykkur.

Skipun á þess vegna ekki að gefa nema henni sé hægt að framfylgja. Ef þú ert að kenna/æfa innkallið byrjar þú á að vera viss um að þú sért í sambandi við hundinn og með athygli hans, frekar en að gaspra út í loftið skipanir um að koma ef athygli hans er ekki á þér.

Ef þú ert ekki viss um hundurinn skilji æfinguna seturðu hann í langan taum/band og sérð til þess að hann komi til þín í kjölfar hverrar skipunar. Hann er einfaldlega hvattur til og halaður inn á bandinu ef hann kemur ekki af sjálfsdáðum. Hrós er mikilvægt að fylgi með í slíkum æfingum, mjúkur málrómur og líkamstjáning sem bíður hundinn velkominn.

Skipanir þarf að gefa með ákveðnum tón, lágri rödd (hvorki biðjandi, skærri né hvellri). Notið líkamstjáninguna til að hjálpa ykkur og ef þarf notið stýringar til að láta hundinn hlýða sbr. að nota nammi eða ýta létt á rassinn á honum til að hann setjist osvfr. Notið hrós og verðlaun alveg óspart með skipunum til að auka líkur á að hann skilji að verkefnið sem hann var beðinn um að leysa hafi verið leyst.

LÍKAMSBEITING

Stefnan skiptir máli og skilaboðin sem þú sendir með líkamsmálinu. Eitt algengasta sem ég hef séð hjá hundafólki er röng beiting eigin líkama og misvísandi skilaboð með líkamstjáningu.

Ef þú vilt að hundurinn komi til þín máttu ekki labba að honum eða á móti honum – því hvaða skilaboð ertu að senda honum jú að þú sért að fara áfram og hvað er hann líklegur til að gera? Gera þér til hæfis og fara í sömu átt. Snúðu þér frekar við og hann mun koma á eftir þér eða bakkaðu. Hundurinn vill fylgja þinni stefnu.

Ef þú hefur þurft að skamma hund í fjarska til dæmis af því hann hlýddi ekki innkalli. Þarftu að skipta um ham á sömu sekúndu og hann brýtur athygli sína af því sem truflaði og lítur eða snýr til þín. Þá þarftu að vera skemmtilegur og með líkamstjáning sem bíður hundinn velkominn.

Að bogra yfir hund er eiginlega aldrei góð hugmynd. Sá sem halalr sér að manni eða yfir mann gefur ekki af sér góða nærveru og getur virst ógnandi. Reynið því að komast hjá slíkri líkamsbeitingu, jafnvel þó þið séuð bara að laga beisli eða hálsól. Að krjúpa við hlið hunds er alltaf þægilegri nálgun fyrir hundinn.

Ef hundurinn þinn er að einbeita sér að nýju verkefni þar sem mikillar einbeitingar er krafist t.d. að leita að sælgæti, dóti eða vinna í Nosework, læra að spora eða leita almennt eða læra stefnubreytingar áfram/afturá bak + hægri/vinstri og þú byrjar skyndilega að hreyfa þig eða tvístíga brýtur það upp einbeitingu hans því honum er eðlislægt að fylgjast með hreyfingum þínum og fylgja þangað sem þú ert að stefna. Hundurinn er alltaf viðbúinn að fara með þér ef þú ætlar að fara af stað, líka meðan hann er að vinna eða er úti að kanna. Við slíkar aðstæður þar sem hundur þarf að einbeita sér og vinna sjálfstætt mæli ég með að fólk standi kyrrt, tjái sig lítið ef nokkuð og ef þið þurfið að hreyfa ykkur gerið það með ákveðnum hreyfingum og yfirveguðum og engar snöggar stefnubreytingar.

Að lesa í merkjamál hunda hjálpar fólki oft betur að átta sig á hvernig vinna má með líkamsstöðu sinni á jákvæðan og neikvæðan máta. Með réttri líkamsbeitingu við æfingar og daglegar athafnir er líklegt að þú styrkir traust hundsins til þín.

Njóttu þess svo að vinna með hundinum þínum, alla ævi.

 

© Kristín Sigmarsdóttir

Grein upphaflega birt á vefsíðu Leitarhunda, www.leitarhundar.is, mars 2010 og uppfærð í september 2014.
Endurskrifað 23. janúar 2017 og aftur 6. júlí 2018

Add Your Comment

© Kristín Sigmarsdóttir