06 Jul

Hvað eru ellimerki í hundum? Hvenær telst hundurinn minn gamall?

Þegar hundar fara að eldast er líklegt að við verðum vör við ýmsar breytingar í fari þeirra, bæði líkamlegar og andlegar.
Mikilvægt er að hafa augun opin fyrir þeim einkennum sem rekja má til aldurs eða hrörnunar. Því eitt er víst þeir munu ekki standa upp einn daginn og segja okkur það beint út, en það gerist þá er það venjulega ekki fyrr en þeir eru langt gengnir í aldurstengdum óþægindum eða kvillum.

Hundar eldast mishratt og því er ekki hægt að segja að við ákveðinn aldur eigi að telja þá gamlingja (svoldið eins og með okkur mannfólkið ☺ ), en hundar eldri en ca. 8-12 ára eru oftast flokkaðir sem gamlir hundar. Dýralæknar og framleiðendur fóðurs miða því oft við að skoða skuli að breyta um 8 ára aldurinn einkum hjá stærri hundum, en um 9-10 ára hjá léttari hundum.  Stórir hundar eldast hraðar en litlir, léttir hundar. Þá er líka algeng mýta að heimilishundar endist betur en vinnuhundar, en það er ekki alveg sjálfgefið. Vissulega slitna vinnuhundar hraðar, en þeir eru líka oft massaðri og sterkbyggðari en heimilishundar og því betur búnir til að takast á við veikindi eða slittengd vandamál. Mikilvægt er fyrir alla hunda að halda í vöðvamassa sérstaklega ef liðir eru farnir að slitna.

Við erum ekki heldur svo heppinn að hundarnir byrji endilega að bera ellimerkin utan á sér. Þau byrja oftast innra með þeim: liðir, blóðrásarkerfi, lifur og einkum nýru eru helstu innri líffæri sem byrja að sýna hrörnun. Sjón og einnig heyrn getur byrjað að daprast og hundar geta meira að segja fengið elliglöp. Því miður þá geta þessir fjórfættu vinir ekki sagt til um einkenni sín og eins og áður sagði sjá eigendur þau oft ekki fyrr en þau eru orðin hrópandi áberandi og farin að há dýrinu.

En spurningin var hvaða einkenni benda til þess að hundurinn minn sé farinn að eldast?
Hér verður stiklað á nokkrum einkennum sem gott er að hafa í huga og hvað við sem umsjónaraðilar dýranna getum gert til að tryggja þeim gott ævikvöld.

MATARLYST & ÞYNGDARBREYTINGAR

Algengt er að hundar fái ýmist aukna matarlyst og byrji skyndilega að fitna eða að þeir missi matarlystina og grennast eftir því sem aldurinn færist yfir.

Þar sem aukin matarlyst er algengari inniheldur felst þurrfóður fyrir eldri hunda mikið af trefjum. Trefjarnar flýta fyrir mettunartilfinningu og örva meltingarkerfið og koma þannig í veg fyrir hægðavandamál. Með aldrinum dregur oft úr hreyfiþörf hundanna og er það oft skýring þess að þeir fitna, þeir hreyfa sig minna og þurfa því minni orku.

Hundar sem grennast hafa að sama skapi minnkað hreyfinguna og þar með rýrna í vöðvamassa og léttast því. Þeir éta minna vegna minnkandi orkuþarfar tengt minni hreyfingu. (að því gefnu að þeir séu heilbrigðir umfram það að vera að eldast).

Það sem er erfiðast fyrir okkur er að meta hvenær á að setja hundinn á sérstakt „senior“ fóður, bæta við hann vítamínum eða fara í ítarlega læknisskoðun. Ég hef miðað við aldur hundsins því forvörn er alltaf betri en lækning og við fæstum aldurstengdum kvillum er til lækning.

SJÓN

Hvumpinn hundur, sem bregður þegar fólk kemur til hliðar við hann eða aftan að honum. Sem byrjar skyndilega að gelta á hluti sem hreyfast í fjarska, eða ímyndaða hluti. Ef hann byrjar að ganga á eða mjög nærri til dæmis veggjum og hurðagötum. Óöryggi þannig að hann gangi á eftir eiganda sínum frekar en á undan eða mikið þéttar við hann en áður.
Hundur sem sýnir slík einkenni gæti verið með dapra sjón.

Þá er einnig hægt að sjá eins og litur augnanna breytist eða að skýjahula leggist yfir þau og gott er að hafa í huga að algengt er að nætursjónin fari fyrst.

Augnsjúkdóma er erfitt að eiga við og því er allt sem við getum gert til að fyrirbyggja þá mikilvægt. En hvað er hægt að gera til að styrkja sjón hunda? Amínósýrur eru mikilvægar til að fyrirbyggja augnsjúkdóma þær má finna náttúrulega til dæmis í eggjum, brokkolí, avókadó og hvítlauk, þá er einnig talið að A, C og E vítamín, Lútín (Lutein) og Selen geti læknað ákveðna augnsjúkdóma. Þá hjálpa ákveðnar góðar fitur sem innihalda omega-3 fitusýrur til að koma í veg fyrir augnsjúkdóma, einkum eru nefndar olíurnar laxaolía, þorskaolía, hörfræolía. Vínberjafræskjarni (Grapeseed / Grapeseed extract) er sett i fóður m.a. fyrir sjóntaugarnar.

LIÐIR

Liðavandamál er að því virðist það sem kveikir á peru okkar flestra að besti vinur okkar er farinn að reskjast og kominn á seinna æviskeiðið.

“Hundur sem alltaf stóð upp þegar ég kom heim og tók mér fagnandi, stendur ekki alltaf upp þegar ég kem heldur kúrir bara áfram.”
“Hundur sem skyndilega (eða æ oftar) er farinn að laumast upp í sófa eða rúm eða annan mýkri stað, hann sem lá alltaf á köldum flísunum áður.”
“Hundurinn sem flaðraði alltaf upp um mig þegar ég kom, fagnar mér ekki lengur með flaðri.”
“Hann teygir sig lengur og meira á morgnana þegar hann vaknar, hann er ekkert farinn að hægja á en er aðeins lengur í gang á morgnana útaf þessum teygjum….. Hann tekur ekki lengur sprettina sem hann gerði….. Hann djöflast eins og hvolpur í göngutúrnum en haltrar svo þegar við komum heim eða daginn eftir.”
“Hún virðist vera viðkvæmari fyrir kulda.”

Allt eru þetta raunverulegar lýsingar frá íslenskum hundaeigendum. Hunda sem voru farnir að reskjast en eigandinn gat ekki beint fullyrt að hann ætti að flokkast gamall. Ágætt er að hafa í huga að snöggar hreyfingar geta valdið bólgum í meiddum liðum. Kuldi fer jafnframt illa í skemmda liði og gigt. Því gæti þurft að breyta því vernig hundurinn er viðraður, hreyfður eða leikið við hann. Munið að þó minnka eigi álag á hunda sem komnir eru með liðavandamál þá er mjög mikilvægt að þeir fái reglulega hreyfingu og styrktaræfingar til að vöðvamassi þeirra rýrni ekki og álagið á liðina aukist enn meira. Mikið er til af valkostum fyrir hunda með liðavandamál, sérhæfð vítamín og lyf sem geta ýmist smurt liðina, fóðrað þá eða amk. Komið í veg fyrir að dýrið líði kvalir við daglegar athafnir.

NÝRU

Nýrnabilun er ein algengasta veikin í nútíma hundum. Nýrnavandamál er afar erfitt að eiga við því þessi líffæri virðast ólseig til vinnu og sýna ekki á sér neinn bilbug þar til allt í einu þau hætta að starfa.

Eitt helst merki þess að hundur sé veikur er að hann hættir að drekka eða fer að drekka óstjórnlega, mikill þorsti. Því mælum við með að fólk viti cirka hvað hundurinn þeirra þarf að drekka á sólarhring, eins og með allt þá er vatnsinntaka einstaklingsbundin. Fólk sem þekkir vatnsinntöku hundsins síns þegar hann er frískur og heilbrigður og mælir almennt vatnið ofan í hundinn sinn greinir fyrr breytingar og á meiri möguleika á að greina veikindi eða vanlíðan og grípa snemma inn í.

Almennt er miðað við að hundur þurfi að drekka ca. 55-110 ml pr. kg á dag, en auðvitað þarf að hafa í huga stærð, virkni og hreyfingu hundsins og hvers kyns fóður hann er að fá en þurrfóðurshundar þurfa meira vatn en hundar sem t.d. eru fóðraðir á blautfóðri. Hundur sem byrjar skyndilega að drekka mikið meira en 100 ml /kg á dag ætti að fara með til dýralæknis.

Vissir þú að eitt merki þess að hundurinn þinn sé með hita eða veikur er þurrt og heitt trýni? Trýnið á að vera rakt og kalt en mjúkt viðkomu.

Þá er líka fróðlegt að fólk viti hvað er eðlilegt magn sem dýrið skilar frá sér af þvagi. Hefur þú spáð í hveru mikið þinni hundur pissar á sólarhring? Hversu fljótt eða seint myndir þú sjá ef breyting yrði á pissuhegðun hans?
Til dæmis ef hundur sem mígur venjulega 2-3 í gönguferð byrjar skyndilega að pissa mikið oftar og lítið í einu eða stoppar helmingi lengur við á hverjum stað og virðist aldrei ætla að hætta að míga (svo kölluð flóðmiga). Þá er að sjálfsögðu ekki eðlilegt að húshreinn hundur byrji skyndilega að pissa inni. Talað er um að eðlilegt sé að hundur framleiði um 20-40 ml af þvagi pr. kíló á dag.

Til að fyrirbyggja nýrnavandamál og stuðla að heilbrigðri virkni þeirra getur þú fóðrað með hágæða hundafóðri með vandaðri samsetningu helstu næringarefna. Til að minnka álag á nýrun og draga úr líkum á nýrnabilun draga flestir hundafóðursframleiðendur úr fosfóri og natríum í „senior“ fóðri og því borgar sig kannski að huga að tilfærslu yfir í ellismellafóður fyrr en seinna.

SENIOR FÓÐUR

Ef þið kjósið eða er ráðlagt að skipta yfir í þurrfóður fyrir eldri hunda, hugið að hlutum eins og:

  • Oft er best að skipta um fóður innan sama fóðurframleiðanda það minnkar líkurnar á stressi/vandamálum tengdum fóðurskiptum.
  • Hvaðan vítamínin koma, eru þau náttúruleg eða tilbúin?
  • Hver er kögglastærðin, hentar hún mínum hundi?
  • Er auðvelt að bleyta fóðrið upp? – sérstaklega fyrir hunda sem eru farnir að missa tennur eða viðkvæmir í tannholdi
  • Hvert er fituinnihaldið? (viðmið fyrir eldri hunda ca. 10% fyrir stóra hunda og 12% fyrir smáa hunda)
  • Fóðrið á að vera orkuminna en fóður fyrir yngri hunda, hvernig draga þeir úr orkunni, eru uppfylliefni notuð?

Ef þið fóðrið hundinn á öðru en þurrfóðri hvort sem það er blautfóður, matarafgangar eða hráfóður.  Breytið samsetningu fóðursins í samræmi við aldur hundsins og hugið að fóðurbætiefnum sem fyrirbyggja og stuðla að bættri líðan.

Upplýsingar voru m.a. fengnar úr eftirfarandi greinum :
http://www.whole-dog-journal.com/issues/5_4/features/5445-1.html
http://veterinarynews.dvm360.com/ins-and-outs-polyuria-and-polydipsia

Tekið saman 2017 af Kristín Sigmarsdóttir ©

Add Your Comment

© Kristín Sigmarsdóttir