05 May

Er hundurinn þinn æstur þegar hann hittir fólk? Ég skil vel að það sé eitthvað sem þig langar að laga. Með slíka hvolpa og hunda þarf að hugsa fyrir nokkrum atriðum og eitt af þeim er hvernig hundurinn þinn hittir annað fólk.

Hundur geltir á gestkomandi.
Mynd: Immortal Shots/ Pexels

Mikilvægur þáttur í hundauppeldi er hvernig skal heilsa hundi. Margir eru með prýðisgóða og vel uppalda hunda en eiga í stökustu vandræðum með allt sem tengist forstofunni og þá helst þegar það koma gestir svokölluð gestalæti. Jafnvel geðshræringuna sem verður þegar þeir sjálfir koma heim og hundurinn lætur öllum illum látum. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem fólk lendir í með hundinn sinn sem ég kalla heimatilbúin vandamál, þetta er hegðun sem hefur þróast og aukist innan heimilisins í athugunarleysi.  Þess vegna ákvað ég að reyna að lýsa í nokkuð stuttu máli hvernig er hægt að draga úr því ef hundurinn þinn er æstur þegar hann hittir fólk og byrja á hvernig skal heilsa hundi.

Stress jákvætt eða neikvætt

Greinin fjallar um hunda á öllum aldri, hvolpa sem fullorðna og aðferðin hentar þeim flestum en mikilvægt er að þekkja hundinn sinn, auðvitað er það erfitt með ungan hvolp sem er ómótaður og ekki farinn að sýna mikinn karakter. En horfið í líkamsmál hundsins. Af hverju lætur hann eins og vitleysingur í forstofunni?  Er hundurinn þinn æstur þegar hann hittir fólk eða hræddur? Það er mjög mikilvægt áður en hafist er handa við að breyta hegðun hunds að reyna að skilja hvers vegna lætur hundurinn svona, hver er orsökin, er hann að sýna eðlilega viðbrögð eða er hann ósjálfrátt búinn að ákveða að sér stafi ógn af einhverju.

Með öðrum orðum er hann hræddur við gestinn/gestina eða er hann svo glaður að hann ræður ekki við sig. Þessi grein mín er miðuð við hund sem ræður sér ekki af gleði. Hundur sem bakkar, jafnvel geltir og djöflst rúman meter frá gestunum, gerir sig líklegan til að stökkva inn í húsið frekar en til gestanna er líklega hræddur. Hann getur verið með uppreist höfuð og eyru og skott eins og hann sé að reyna að gera sig stóran eða hann getur verið með skottið undir kviðinn, höfuðstöðuna lágreista og jafnvel verið hálfskríðandi. Sumt í þessari grein á við um slíkan hund og annað ekki. Ef hundurinn þinn hagar sér svona mæli ég með að þú fáir hundaþjálfara sem þekkir til hræðslu í hundum eða atferlisfræðing til að hjálpa þér. Ef þú ert með hvolp, ungan hund, er þetta fljót lagað með réttri þjálfun. Ef ekki er gripið inn í er þessi hegðun líkleg til að vera til frambúðar og jafnvel versna og sína sig í öðrum aðstæðum. Hundum þarf oft að hjálpa út úr hræðslu.

Gestir heilsa hundi

Gestir og jafnvel ókunnugir krakkar eiga það til að heilssa hundum nokkuð hressilega og glaðlega – því fylgir oft töluverður æsingur og algengt að eigandinn missi stjórn á aðstæðum.

Stúlka heilsar hundi.
Mynd frá : Kai-Chieh Chan/Pexels

Best er ef allir heilsi hundinum kurteislega og allra best væri ef fólk myndi biðja um leyfi til þess fyrirfram. En lífið er ekki alltaf svo gott, fólk sem heimsækir ykkur vill líka hitta hvutta, sérstaklega ef hann er hvolpur og fíflast í honum, knúsa hann og kjassa.

Það er alltaf snjall leikur ef þið vitið að von er á gestum að viðra og hreyfa hundinn vel áður, leika svolítið við hann og gera hann aðeins líkamlega og andlega þreyttan. Þegar gestirnir koma þarf ekekrt endilega að hleypa hundinum til þeirra strax og nota tækifærið og leggja þeim nokkrar grunnreglur s.s.:  biðja þá að ekki heilsa honum strax, ekki fyrr en hann er rólegur og með alla fjóra fætur á jörðinni. Því sú hegðun sem gestir leyfa sér að sýna hvolpum er oft til háborinnar skammar (já ég segi það fullum fetum) og gerir það að verkum að hvolpurinn telur að hamagangur og læti sé viðtekin venja þegar gestir eiga í hlut og læra ekki frá upphafi að sýna kurteisi og stillingu þegar ókunnugir eiga í hlut.

Hver þekkir ekki háu röddin sem fer upp á háa c-ið með “Jiiiiiiiiii komdu hérna krútt” og svo er hvolpurinn rifinn upp af gólfinu í fangið á einhverjum ókunnugum eða er farinn að kútveltast um öll gólf með viðkomandi.

Setum hvolpinn í samhengi við börn. Það telst ekki kurteisi ef feimið barn á í hlut að djöflast í því og er heldur ekki þægilegt eða kurteist fyrir hvolp. Hvað þá með vel virkt eða ofvirkt barn að það sé gott fyrir það að fara úr núll upp í hundrað í hamagang bara af því Bjössi frændi ákvað að koma við í einn kaffibolla. Fáum gestinn okkar til að skilja hvað er hvolpinum fyrir bestu.

Gott er að benda gestum á : hundar eru með fjórar fætur og vilja hafa þær allar á jörðinni. Hundar eru í jafnvægi með 4 fæturnar á jörðinni og líður best andlega ef þeir eru í jafnvægi. Hvolpa nart og slagsmál er kannski krúttað fyrstu vikurnar – en þegar hvolpurinn er orðinn stærri þá er flaður hvorki þægilegt né praktískt. Ímyndið ykkur hvað fullorðinn, æstur, flaðrandi, stjórnlaus hundur getur skemmt margar buxur eða sokkabuxur og meitt fólk, jafnvel hrint því um koll í æsing við að heilsa. Bara af því við kenndum honum ekki kurteisa siði strax í upphafi.

Líkamsbeiting við að heilsa hundi

Er hundurinn þinn æstur þegar hann hittir fólk? Þá skulum við biðja fólkið að hjálpa okkur að laga það. Þið getið annað hvort talað við gestina áður en þeir koma og útskýrt nokkur grunnatriði fyrir þeim sem myndu hjálpa ykkur í uppeldinu, eða útskýrt það við komuna áður en þið hleypið hvolpinum til þeirra.

Líkamsbeiting gestanna getur skipt máli, hér eru nokkrir punktar. Athugaðu að ef þú ert í vandræðum með hegðun hundsins þegar þú sjálf/-ur kemur heim þá eiga þessir punktar líka við um þig.

Biðjið gesti að fara niður á annað hné og snúa hlið að honum frekar en snúa beint að honum. Gott er að fara niður til hundsins, eins nálægt hæð hundsins og hægt er til þess að hann þurfi ekki að flaðra upp og geti staðið á 4 fótum. Athugið ekki er gott að beygja sig eða bogra yfir hann, frekar að fara niður á hnéð.

Farðu niður til hundsins, svo hann þurfi ekki að flaðra upp til þín.       Mynd: Gustavo Fring/Pexels

Tónhæð þegar hundi er heilsað

Biðjið gestinn að tala við hundinn/hvolpinn í sömu tónhæð og við flokkum sem samræðutón … jafnvel aðeins lægra en það, gagnvart mjög æstum hundi sem ræður ekkert við sig þá jafnvel nánast hvísla ég.

Það telst kurteisleg nálgun hjá hundum að heilsast rólega og yfirvegað.  Biddu fólk alltaf að heilsa honum af sömu nærgætni og feimnum krakka – jafnvel þó hann sé æstur og glaður að sjá fólk. Ef fólk heilsar honum alltaf eins og feimnum krakka núna meðan hann er lítill þá lærir hann að maður heilsar gestum af kurteisi og í rólegheitum og byrjar að apa upp þessa hegðun fólksins. Hins vegar ef allir heilsa alltaf á háa c-inu þá lærir hann að það sé eðlilegt að missa stjórn á sér þegar það koma gestir. Hundar og sérstaklega hvolpar læra af hegðun þeirra sem þeir allast upp með og endurspegla hana.

Líðan okkar endurspeglast mjög oft í tónhæðinni sem við notum og beitingu raddarinnar. Hvolpar og hundar læra það mjög fljótt og stilla eigin stemmingu út frá því.

Snerting eða klapp þegar hundi er heilsað

Þegar gesturinn er kominn inn og farinn niður til að mæta hundinum í hans hæð og talar rólega til hans. Vill viðkomandi oft fá að klappa hundinum og hundurinn sækir oft sérstaklega eftir klappi eða stroku. Það er í góðu lagi en ef við erum að reyna að róa hund skiptir máli hvernig við gerum það. Við til dæmis róum hann ekki niður með því að klóra honum hressilega við eyrun eða hrista á honum kollinn. Við strjúkum honum rólega og yfirvegað til dæmis á öxlum eða bringu, kinnum og eingöngu ef hann er með 4 fætur á jörðinni – sem sagt ekki klórandi í viðkomandi eða flaðrandi upp á hann.

Mín regla er ef hundurinn ókyrrist og byrjar að lyfta fótum og gera sig líklegan til að æsast þá hætti ég að klappa honum og tala ekki við hann, lít jafnvel rólega frá honum. Hann fær klappið og ástina ef hann er rólegur.

Á hundurinn að sitja og bíða?

Hundur hefur lært að sitja kurteis við útidyrnar.
Mynd: Lisa Fotios / Pexels

Mér finnst ekkert atriði hér að hundurinn sitji. Mjög algengt er að fólk ætlar að stjórna hegðun hundsins, ná tökum á aðstæðum með því að biðja hundinn að setjast. allir kenna hundinum sínum að setjast og vilja svo að hann geri það í þeim aðstæðum þar sem eigandinn vill hafa stjórnina. Í forstofunni hins vegar endar það oft með mjög æstum hundi sem bæði eigandinn og gesturinn eru að reyna að skipa að setjast niður, hundurinn er jafnvel að reyna að hlýða en er of æstur til að halda setuna út og springur á endanum á limminu. Ég leyfi hundinum að nálgast gestinn á eigin forsendum, hann má sitja, liggja eða standa eins og hann vill – hugarástand hans er það eina sem skiptir mig máli. Fjórar fætur á jörðinni og hreyfing líkama hans er það sem segir mér hvernig hugarástand hans er.

Fyrst þarf að ná stjórn á hugarástandi og æsingar-“leveli” hundsins í forstofunni gagnvart gestum áður en við förum að ætlast til að hann geti haft fulla sjálfstjórn til að sitja og bíða allan þann tíma sem tekur gestinn að koma sér úr útifötunum og inn til okkar. Ég mæli hiklaust með að þið notið sitja og bíða við forstofuna síðar meir ef ykkur finnst það gott eða þægilegt. En á þessu stigi málsins á það bara ekki við. Þið stillið hundinum og sjálfum ykkur upp til að mistakast og það er aldrei gott – pirringur yfir einhverju sem er að mistakast hjápar okkur ekki að ná stjórn á andlegu ástandi hundsins heldur þvert á móti.

 

Forstofan og hlýðniæfingar

Þegar engir eru gestirnir og þið eruð í rólegheitum heima með hundinn byrjið að kenna fyrir honum hlýðniæfingar í forstofunni. Eins og að sitja og bíða. Fyrstu viðbrögð hundsins verður æsingur og hvers vegna? hann heldur jú að þið séuð að fara út.

Gerið hlýðniæfingar í forstofunni án þess að þið séuð að fara út. Þegar hundurinn er góður í æfingunum og er farinn að geta slakað sér í skipun að sitja eða liggja í forstofunni getið þið aukið erfiðleika stigið,t.d.:

  • opna hurðina rólega og ætlast til að hann sé kyrr
  • láta hurðina standa opna og hann sé kyrr
  • klætt ykkur í úlpuna og aftur úr henni eða í skóna og úr þeim.
  • biðja einhvern að banka/dingla og ef það gengur vel þá æfa sig að opna svara og loka aftur

Eigandinn kemur heim

Allt hér að ofan á jafnmikið við um eigandann eins og gestina. Ég heilsa mínum hundum strax við komuna heim, þegar þeir koma og fagna mér í forstofunni. Ég heilsa þeim á yfirvegaðan máta og rólega, heilsa og strýk þeim rólega og létt um kambinn. Ef það er æsingur í gangi sný ég mér frá þeim og fer úr jakkanum, sem sagt tala ekki við þá, eða fer úr skónum. Sný mér svo aftur við og heilsa þeim ef ég mæti rólegra viðmóti. Ef viðmótið er enn frekar hátt stemmt, þá sný ég hliðinni að þeim og tala rólega til þeirra og bíð eftir að þeir komi rólega og sæki snertingu.

Ég ætlast ekki til að neinn hundur sé undirgefinn eða komi sultuslakur til mín. Ég veit að þeir eru glaðir að sjá mig og ég er alltaf glöð að sjá þá. Þeir mega sýna mér gleðina með miklu skottsveifli, brosandi opinn munnur og másandi, jafnvel dillandi búkur. Svo lengi sem fjórir fætur eru á jörðinni, þeir eru ekki að slást um athyglina við mig eða hvorn annan. Gleði og væntumþykja er að sjálfsögðu hluti af þessari seremóníu okkar – en óeðlilegur æsingur er það ekki.

Þetta byrja ég að kenna hundum strax við komuna inn á mitt heimili því fyrir mér er þetta mikilvægur þáttur í sambúð okkar. Að ég geti komið heim án þess að fötin séu rifin utan af mér og að börn og amma gamla geti komið í heimsókn án þess að ég telji heilsu þeirra í húfi.

Hlið í forstofu

Algengt er að fólk spyrji mig á ég að loka forstofuhurðinni eða nota hlið eða hafa hundinn í taumnum ef hundurinn er æstur þegar hann hittir fólk?

Ég er mjög hlinnt hliðnotkun og hverju því sem hjálpar okkur að hafa stjórn á aðstæðum. Ekki af því það setur hundinum svo góðar skorður heldur af því hlið setur hugarástand eiganda og hunds á góðan stað. Hundurinn er mjög fljótur að læra að hliðið hamlar honum og hann er því ekki að reyna að missa sig við að fara inn í forstofuna. Hann getur jafnvel lært að heilsa við eða yfir hliðið rólega og yfirvegað.

Ég er alveg líka hlynnt því að setja hundinn í taum – en eingöngu ef eigandinn kann að nota það. Ef hundurinn er settur í tauminn svo kippa megi í hann og minna hann þannig á að hann eigi að hlýða er ég alls ekki hlynnt notkun hans. Ég aðhyllist handfrjálsa hundaþjálfun þar sem hundinum eru ekki settar líkamlegar hömlur eða minntur á það með t.d. taum að hann eigi að vera að gera eitthvað. Þess vegna er hliðið betra að mínum mati það setur honum skorður en ekki er hægt að hegna honum á nokkurn hátt með því.

Að loka forstofuhurðinni mæli ég oftast ekki með það er líklegt til að búa til önnur vandamál eins og hopp á hurðina, gelt við hurðina, klór í hurðina og jafnvel að hundurinn setji sig í stellingar og hoppi á fólkið sem kemur inn um hurðina loksins þegar hún opnast. Bak við lokaða hurð þar sem hundurin heyrir í gestkomandi og eiganda spjalla býr til spennu hjá hundinum, hann er líklegri til að keyrast upp í hugaræsing og spenning fyrir því sem er að fara að gerast heldur en að róast niður.

Hliðið og fjarlægðin gefa honum líka tíma til að jafna sig ef hann missti stjórn á gleði sinni og þið getið kosið að fara ekki inn fyrir hliðið fyrr en hann er búinn að jafna sig – sem ég mæli auðvitað alltaf með að þið gerið: bíðið eftir að hundurinn er búinn að ná stjórn á sér og orðinn yfirvegaður.

Hliðið gefur ykkur tíma og svigrúm til að segja gestinum hvert vandamálið er og hvað þið ætlið að biðja hann að gera í umgengni við hundinn. Hliðið gerir það að verkum að þið missið síður stjórn á aðstæðum og að slys verði (til dæmis flaður upp á barn sem gæti endað með andlitsklóri) eða hundurinn sleppi út. Hliðið gerir það að verkum að þið sjálf fáið andrýmd og svigrúm til að lesa í hegðun hundsins og bregðast við.

Hliðið er hins vegar alveg mislukkuð aðferð ef það frestar bara vandamálinu og sami æsingurinn byrjar þegar gesturinn er kominn inn fyrir hliðið, hundurinn byrjar að gelta við það af æsingnum eða annað nýtt vandamál skýtur upp kollinum. Svo passið ykkur á því. Hliðið leysir ekki vandamálið frekar en nokkurt annað tæki eða tól í hundaþjálfun. Venjið hundinn við hliðið og góða umgengi við það.

Hundur heilsar í gegnum hlið.
Mynd: Izabella Bedő / Pexels

Að lokum

Ég vona að þið séuð einhverju nær hvernig má bregðast við ef hundurinn þinn er æstur þegar hann hittir fólk og því hvernig ég tel ásættanlegt að heilsa hundi og hvernig þið getið komið í veg fyrir ergelsi tengt gestakomu. Það er hægt að hafa þennan póst mikið mikið lengri og mun ég frekar birta framhaldspóst en að lengja þennan. Hundaþjálfun er oft best fyrir okkur eigendurna að taka inn í smáum bitum og svo púsla þessum hlutum saman í heildarmynd en að ætla að taka inn allar upplýsingarnar í upphafi og fara svo að vinna með þær.

Leysið vandamálin um leið og þau koma upp, ekki leyfa þeim að ágerast eða síast inn í að verða rútína, þið verðið bara lengur að leysa það og vinda ofan af því. Þannig aukið þið líka líkurnar á að geta glímt við eitt vandamál í einu og leyst það í rólegheitum með einföldum aðferðum. Njótið þess að vinna með hundinum ykkar alla ævi.

 

© Kristín Sigmarsdóttir