20 Sep

Gæða tími er einn af mínum uppáhalds frösum og fólk fær að heyra mig segja hann oft þegar það spyr út í hundinn sinn eða uppeldið á honum.
Mörg viljum við hafa hundinn með okkur í daglegum athöfnum. En það að vera með hundinum eða að eyða með honum tíma er tvennt ólíkt. Hér er örstutt brot úr fyrirlestri gærdagins sem gæti nýst öllum huundaeigendum.

Þess vegna segi ég eyðið GÆÐA TÍMA með hundinum ykkar. Tíma þar sem hann getur lært ykkar hegðunarmynstur og þið fylgst með og lært hans tjáningarmynstur. Gæða tími getur verið leikstund eða snyrtistund jafnvel bara kósý tími sem þið sitjið á gólfinu og klappið honum, gælið við hann og talið til hans rólega.

Hér eru það gæðin sem skipta meira máli en magnið, sem þýðir að stundin þarf ekki að vera löng en ef þið gefið honum fulla athygli og tíma þá nærið þið ykkur bæði/báða andlega.

Eftir hverju horfir hundurinn? Ykkar tilfinningum og hvernig þið tjáið þær, hvað lýsir velþóknun og hvernig vanþóknun kemur fram. Hann vill gera ykkur til geðs og því skipta þessar tilfinningar hann mestu máli, hvenær þið eruð ánægð með hann og hvenær þið eruð líklega til að vilja koma og leika. Hvenær þið eruð ekki ánægð með hann, svo hann geti forðast að endurtaka það sem þið viljið ekki.

Forvörn er betri en lækning, sem þýðir að ef þið þekkið hundinn ykkar þá getið þið frekar brugðist við þegar eitthvað hrjáir hann. Ef þið þjálfið hundinn ykkar meðan hann er ungur þá eru minni líkur á að hefðbundnir erfiðir tímar í lífi hunds verði ykkur erfiðir og líði jafnvel stóráfallalaust hjá. Þarna er ég að tala um tímabil eins og þegar hann fer í hræðslutímabilið um 5 mánaða aldurinn og gelgjuna og kynþroskaskeiðið og allt það sem hann á eftir að ganga í gegnum á þroskaferlinum.

Andleg og líkamleg örvun eru jafnmikilvægar í lífi hunds. Andleg örvun þroskar skynfæri hans og eykur sjálfstæði hans, heilaleikfimi er líka miklu meira krefjandi en til dæmis að fara út að hlaupa. Hver kannast ekki við það að hafa sest aftur á skólabekk og verið alveg búinn á því eftir fyrstu tímana. Það er vegna þess að heilinn nýtir gífurlega orku í verkefni sem krefst einbeitingar eða útsjónarsemi.

Þannig að ef þú hefur lítinn tími til að viðra eða ganga með hundinn þinn einn daginn gætir þú prófað að láta hann glíma við verkefni. Hvolpur gæti til dæmis fengið morgunmatinn sinn dreifðan á gólfið í stofunni eða í grasið í garðinum. Þannig þarf hann að hafa fyrir því að finna hvert korn. Hann þreytist andlega og líkamlega við að leysa verkefnið og fer bæði saddur og þægilega þreyttur inn í daginn, gerir hægðir sínar og er fljótlega til í fyrsta lúrinn.

Vertu frjór í að finna nýjar gæða stundir með hundinum þínum því það eru þessar mínútur sem styrkja samband ykkar einna mest og gera ykkur að teymi.

© Kristín Sigmarsdóttir