18 Feb

 

Af hverju er mikilvægt að láta hundana sína gera skrýtnar æfingar, æfa þol og þekkja beitingu aftur og framfóta jafnt? Af hverju þurfum við að æfa hvolpana okkar þannig að þeir geti gengið meðvitað og beitt aftur fótum í takt eða á víxl við framfætur? Af hverju lætur Kristín ykkur gera skrýtnar æfingar með hundunum ykkar eins og að láta þá stíga upp á plast”blöðru” og jafnvægispall þegar þið hafið skráð ykkur á hlýðninámskeið? 🙂

Af því hundar í borgum þurfa á líkamsþjálfun að halda rétt eins og fólk sem stundar kyrrsetu vinnu. Vinnuhundar þurfa líka að þjálfa upp vöðva og styrk fyrir vinnuna sem þeir eiga að vinna til að koma í veg fyrir óeðlilegt slit og álag. Líkamleg hæfni kemur ekki að sjálfu sér.

Hundar þurfa áreiti sem reynir á líkama og heila, þetta eru snjallar skepnur og þó þeim líki það vel að fara út að hlaupa þá þurfa þeir að æfa svo miklu fjölbreyttar en það sem við flest erum að gera dagsdaglega.

Hugsið út í þetta: hvenær verða slys hjá okkur mannfólkinu tengd íþróttum? Þegar við erum óupphituð og rjúkum inn í æfingu eða þegar við erum að stunda íþrótt sem við þekkjum ekki/ erum óvön að stunda og förum of geist. Hver þekki ekki einhvern sem þurfti veikinda frí því hann skrapp í fótbolta með strákunum eða álíka?

Hundar gera það sama, þeir verða svo spenntir þegar þeir fá verkefni að þeir kunna sér ekki hóf. Gleðin við að gera með okkur, að verðlauna sjálfa sig með því að grípa bolta lengst uppi í loftinu eða snúa við á punktinum til að koma boltanum aftur til skila, að hoppa upp á kant osvfr.

Þá er upphitun líka mikilvæg, ekki taka kaldan hund úr búri á bíl og senda hann beint í að draga sleða eða hlaupa af stað í langhlaup. Hitið hundinn upp, gefið honum færi á að hreyfa sig, teygja og pissa og þetta helsta sem hundar vilja gera og jafnvel leikið við hann í smá stund til að koma kerfinu í gang.

Svo mín ráðlegging til ykkar: byrjið æfingar rólega og byggið spennu upp samhliða því að hita upp hundinn og misbeitum þeim ekki! Gerið líka skrýtnar jafnvægisæfingar heima og látið þá hugsa og styrkið hundana ykkar. Ég hef líka alltaf lagt áherslu á að gera æfingar með hundana hægt. Láta þá slaka á og hætta að spenna sig upp þegar verið er að gera æfingar, ekki láta þá hoppa úr einu í annað heldur gera æfingar rólega, meðvitað og með fulla stjórn á líkama og huga. Rökin fyrir því á til dæmis lesa hér í þessari grein á Daily Dog Discoveries.

Frábærar tengslaæfingar og frábærar styrktaræfingar má sjá í þessu myndbandi sem ég sá á netinu í dag, hér sjáiði hvernig hundar eru æfðir og styrktir á jafnsléttu með frábærum jafnvægisæfingum og svo sjáið þið líka hvar og hvernig þessi æfing nýtist þeim í vinnu/sporti og þar með daglegu lífi:

© Kristín Sigmarsdóttir