06 Jul

Hundar eru þjálfaðir til vinnu um allan heim. Hundar eru til margs gagnlegir og eru þjálfaðir um allan heim til að finna ólíklegustu hluti, það virðast engin takmörk fyrir getu þessa besta vinar okkar.

Hundaeign á Íslandi er sífellt að aukast. Þeim sem halda fleiri en einn hund fjölgar og samkvæmt dýralæknum virðist aukning vera á smáhundaeign umfram stærri hunda. Talið er að um 70% hunda á Íslandi teljist til smáhunda. Við sjáum jafnframt að hundategundum fjölgar, á hverri hundasýningu dúkka upp nýjar tegundir ný innfluttra hunda.

Ég tel að með tilkomu internetsins og einkum samfélagsmiðla hafi hundaheimurinn minnkað og möguleikar einstaklinga til að kaupa sinn draumahund aukist. Mikið auðveldara er að finna rétta ræktendur en áður og samskipti eru auðveldari.

En hefur þig einhvern tíma langað til að vinna með þinn hund? Hvernig hunda erum við að þjálfa hér á Íslandi?

Leitarhundar

Hér eru þjálfaðir leitarhundar af sjálfboðaliðum hundasveita Slysavarnaféalgins Landsbjargar til að finna týnt fólk :
• Í snjóflóðum eða undir snjófargi, snjóflóðaleit
• Á víðavangi eftir loftlykt, víðavangsleit
• Eftir sporunum þeirra, leiðinni sem þau fóru, sporleit
• Í vatni, vatnaleit
• Í rústum, rústaleit
• En einnig látið fólk og líkamsleifar, líkleitarhundar

Löggæsluaðilar, Tollgæslan, Lögreglan og Landhelgisgæslan, halda og þjálfa hunda til að finna ólögleg og hættileg efni líkt og fíkniefni (fíkniefnaleit) og sprengiefni (sprengjuleit). Stofnanirnar vinna saman og á víxl við að hamla dreifingu og notkun þessara efna.

Má kalla smalahund leitarhund?

Mikið af frábærum vinnuhundum eru ræktaðir og þjálfaðir hér heima.

Góðir smalahundar hafa þekkst hér lengi, flestir þeirra voru svokölluðu skosk-íslensku hundarnir sem voru enhvers konar Border Collie afbrigði eða eins og ég hef kallað þá sérræktaða íslenska bastarða. Frábærir hundar sem ætlað er að halda fé í hóp og reka það tiltekna leið. Íslenski hundurinn er smali og hann var góður að reka fé þó hann sé minna notaður til þess í dag. En að mínu viti eru smalahundar einnig leitarhundar því þeir leita uppi og vísa oft á fé og smala því inn í gangnahópinn.

Minkahundar hafa verið notaðir lengi á Íslandi en minkurinn er ekki náttúrulegur landnemi á Íslandi, hann er afkomandi strokudýra úr loðdýrarækt og hann gerir mikinn óskunda í fisk og fugli. Minkahundar eru að sjálfsögðu ein tegund leitarhunda þvi þeir leita upp og staðsetja bráð sína. Þeir klára jafnt framt oft verkið og drepa bráðina með hjálp frá eiganda eða alveg sjálfir.

Ákveðin tegund fuglaveiðihunda eru leitarhundar því þeir finna og staðsetja og merkja á staðsetningu fugla svo eigandinn geti klárað drápið. Sumir þeirra eru einnig þjálfaðir í að leita að bráðinni eftir að hún hefur verið skotin og færa hana til eigandans.

Aðstoðarhundar

Þá hafa aðrar tegundir vinnuhunda verið að ryðja sér hratt til rúms á Íslandi.

Leiðsöguhundar fyrir blinda og sjónskerta hefur fjölgað hratt undangengin ár og hefur tilkoma þeirra hraðað samþykki hundahalds víða til dæmis í strætisvögnum og víðar.

Heimsóknar hundar hjá Rauða krossinum njóta síaukinna vinsælda en hundarnir fara á stofnanir víðs vegar og brjóta upp daginn fyrir heimilisfólki.

Þjálfun hjálparhunda er að byrja að ryðja sér til rúms af alvöru á Íslandi en hjálparhundar er þjálfaðir til að aðstoða fólki með hvers konar fötlun í daglegu lífi.

Dráttarhundar

Sleðahundasport og svokallað Bike joring er sístækkandi sport og er fólk að nota hvers kyns hunda í það þó algengastir séu sleðahundategundirnar. Þá hafa einhver ferðaþjónustufyrirtæki undanfarin misseri boðið upp á hundasleðaferðir.

Leitarhundar erlendis

Erlendis eru hundar þjálfaðir til að finna allt mögulegt og er þetta bara það sem kemur fyrst í huga mér:

  • Rúmlýs
  • Ýmsan smyglvarning s.s. landbúnaðarvörur, peninga,
  • Krabbamein
  • Myglusveppi
  • Líkamsvessa s.s. sæði og/eða blóð
  • Snáka og slöngur
  • Gasleka
  • Önnur gæludýr
  • ……….Og svo mætti lengi telja

 

© Kristín Sigmarsdóttir

Add Your Comment

© Kristín Sigmarsdóttir