Hlýðniþjálfun – hvers vegna ættir þú að hlýðniþjálfa þinn hund?
Hlýðniþjálfun er afar mikilvæg fyrir hunda, hundaeigendur og allt samfélagið okkar. Vissir þú til dæmis að flest sveitarfélög veita afslátt af árgjaldi ef staðfest er að hundurinn hefur lokið hlýðninámskeiði og staðist ákveðið grunnpróf? Af hverju skyldu sveitarfélögin gera það jú þau vilja verðlauna hundaeigendur sem sýna af sér ábyrga hegðun og vilja til að falla inn í reglur samfélagsins með ferfætlinginn sinn.
Hlýðniþjálfun er atferlisþjálfun, við mótum hegðun hundsins með því að verðlauna þá hegðun sem við viljum ýta undir. Hér áður fyrr var alltaf talað um hlýðniþjálfun því hundar áttu að vera hlýðnir eiganda sínum sem var foringinn og undirgefnir. Í dag er almennt meira talað um hundaþjálfun og svokallaðar foringjapælingar verið lagðar á hilluna. Samband hunda og eiganda er eins og hvert annað samband sem við eigum í hvort sem það er við vini, maka eða börn. Það er samband sem er gegnsætt og byggir á trausti og samskiptum. En hvaða nöfnum sem við kjósum að nefna það hundaþjálfun / hlýðniþjálfun er nauðsynleg til að mynda samskiptabrú milli tveggja ólíkra tegunda sem tjá sig með sitthvoru tjáningarforminu.
Þegar við fáum okkur hvolp (nú eða fullorðinn hund) þá þarf að kenna honum að haga sér í samræmi við okkar þarfir, væntingar og lífsmynstur og einnig eftir reglum samfélagsins sem við búum í. Hlýðniþjálfun er frábær leið til að kynnast hundinum sínum og hvernig hann tjáir sig. Þú ert komin með einstakling í hendurnar sem skilur þig ekki, hann talar annað tungumál og þið þurfið að finna tjáningar munstur sem hentar ykkur báðum að eiga samskipti með. Góð samskipti ykkar á milli eru augljós út á við og gott samband ykkar mun endurspeglast í trausti samfélagsins til ykkar sem samborgara. Við erum jú ekki eyland, við búum flest í borg, bæ eða öðru nábýli við annað fólk og við þurfum að aðlaga okkur að samfélaginu. Samfélagið tekur okkur opnum örmum ef við erum með allt okkar á hreinu og sýnum traust og góð samskipti, hlýðinn hundur er því gæðavottun á þig sem hundaeiganda.
Fyrir mér er hlýðniþjálfun ekkert síður öryggisatriði. Við gætum öryggis annarra ef hundurinn okkar getur hlýtt í ólíkum aðstæðum. Umferð bíla og annarra ökutækja er til dæmis áhyggjuefni fyrir hundaeigendur. Kann hundurinn þinn að stoppa á gangstétt og líta til beggja hliða? Kann hann að vara sig á umferðinni eða er hann orkubolti sem skýst um allt, og skapar þannig sjálfum sér og öðrum hættu. Hundar þurfa einnig að kunna og geta umgengist fólk á öllum aldri, börn sem gamalmenni, andlega veika einstaklinga og einstaklinga með fötlun. Við þurfum líka að kenna þeim traust og styrkja þá andlega því borgarumhverfið er afar ögrandi og truflandi. Það er ekki sjálfgefið að hundi líði vel innan um borgareril en með réttri þjálfun og nálgun er það leikur einn að venjast.
Fyrsta sem við þurfum að athuga áður en við byrjum að hlýðniþjálfa hund:
- hvernig vill ég að hundurinn hagi sér með mér og í kringum mig?
- hvernig vil ég að hann bregðist við skipunum mínum?
- hvernig er öruggast fyrir mig að ferðast með hann í mínu daglega umhverfi?
- hvernig hundaeigandi vil ég vera?
- hvernig samskipti eru eðlileg á milli okkar?
- og oft er gott að hugsa hvernig vil ég ekki ala hann upp? Hvað hefurðu séð hjá öðrum sem þú vilt ekki sjá í þínum hundi eða þér sem hundaeiganda?
Þetta er jú þinn hundur og vonandi muntu verja næstu ca. 15 árum með honum, svo það er ágætt að gera sér í hugarlund með sjálfum sér hvað maður vill, hversu miklum tíma maður ætlar að verja í að þjálfa hann. Gerið ykkur raunhæfar væntingar og kröfur sem henta ykkur. Væntingar annars fólks og ykkar eru ekki endilega alltaf þær sömu svo ekki láta aðra setja pressu á ykkur. Mikilvægt er að þið verjið tíma með hundinum og að hann hafi áhuga, vilja og TRAUST til að vinna með þér. Það tekur mislangan tíma að þjálfa hund, hundar eru einstaklingar og það sem hentar einum hentar ekki altlaf öðrum. Þess vegna eru til fleiri en ein leið að sama markmiðinu.
Öll samvera ykkar hundsins á að vera skemmtileg hver sem hún er, hvort sem það er hlýðniæfing, kúrutími eða viðrun.
Ég segi oft við nýja hundaeigendur og fólk sem ég aðstoða við að þjálfa hundana sína:
“Þú átt að vera skemmtilegasta manneskjan/dýrið í huga hundsins og það skemmtilegasta í heimi á að vera samvera ykkar, til þess að þið náið hámarksárangri saman hvort sem það er í almennri hlýðni, leit eða einhverju öðru. Ef að einhver annar nær betri árangri í að vinna með þinn hund eða er álitinn skemmtilegri af hans hálfu þá verðum við að bæta það! Hvernig á hundurinn til dæmis að vilja og læra að koma til þín (læra innkall) ef þú ert grimmur eða ósanngjarn stjórnandi.”
Mér finnst þetta eiga vel við til dæmis fyrir fólk sem á hund á heimilinu fyrir og fyrir maka sem upplifa það að hundurinn er hrifnari af öðrum aðilanum og fylgir honum frekar. Hlýðniæfing er frábært tæki til eiga gæðastund með hundinum sínum. Á örfáum mínútum á dag nær eigandinn að bindast hundinum og þeir læra í sameiningu að þróa með sér tjáningarform. Slík þjálfun gerir samveruna með hundinum í framtíðinni að mörgu leyti mikið ánægjulegri fyrir vikið: hundurinn er afslappaðri, hlýðnari og auðveldara er að stýra honum inn í flókin verkefni. Afslappaður hundur er ánægður hundur.
Þó vil ég taka fram áður en lengra er haldið að öllu má ofgera. Með því að kenna hundum of mikla hlýðni getum við tekið úr þeim ákveðið frumkvæði sem er þeim nauðsynlegt til þess að geta lokið t.d. vinnuþjálfun eins og að verða leitarhundur. Allir þurfa því að finna jafnvægi í sinni þjálfun en eitt veit ég og það er að ekkert okkar vill búa í 10-15 ár með aðila sem hvorki talar né skilur okkar tungumál. Þess vegna er svo mikilvægt að mætast á miðri leið og búa til samskipta mynstur sem hentar báðum.
Njóttu þess svo að vinna með hundinum þínum, alla ævi.
© Kristín Sigmarsdóttir
Grein upphaflega birt á vefsíðu Leitarhunda, www.leitarhundar.is, mars 2010 og uppfærð í september 2014.
Endurskrifað 23. janúar 2017 og 6. júlí 2018.