25 Nov

Ég verð að segja að verkefnið sem ég tók að mér að ala upp blóðhundshvolpinn Pílu hefur verið bæði litríkt og ævintýralegt. Það er alveg sama hvað maður hefur alið upp marga hunda, setið mörg námskeið eða hlustað á marga fyrirlestra og talað við marga spekinga. Á milli hunda og hvolpa eru alltaf ákveðin atriði sem gleymast, kannski svipað og með barnsburð megnið af fæðingunni sjálfri er óljós minning. Ætli þetta séu ekki sjálfsbjargarviðleitini mannsins, að gleyma því sem erfitt eða vont er. Að minnsta kosti hef ég æði oft hugsað undanfarið, var þetta svona? er ég að gera eitthvað vitlaust? á hún ekki að vera farin að bregðast betur við þessu eða hætta þessu? Vandamál okkar allra, hvort sem við erum hundaþjálfarar eða ekki, vandamálið er ákveðin óþolinmæði því hvolparnir stækka svo hratt, við hreinlega horfum á þá hækka, stækka og þrekna og við ætlumst til að andlegur þroski sé í samræmi, andlegur þroski sé jafn hraður og hæfni þeirra til að meðtaka jöfn hröð. EN SVO ER EKKI.

Hvolpaþjálfun hvort sem er fyrir vinnuhund eða heimilishund er tímafrek þolinmæðisvinna og það eru ekki allir sem halda hana út því hún virkilega reynir á okkur. Við tökum inn á heimilið dýr sem er mállaust og í raun líka heyrnarlaust því það skilur ekki okkar tungumál, hvorki talað mál né hegðun okkar. Því við erum önnur dýrategund en hundar og samskipta máti okkar er svo ólíkur hundanna. Lítill hvolpur kemur til okkar frá tíkinni, móður sinni, stútfullur af leik og orku, forvitni um lífið og tilveruna. Allt er spennandi, allt er leikfang, allt þarf að smakka, prófa og reyna á – hvort sem það er fólkið, húsgögn eða aðrir innanstokksmunir. Okkar er að aðlaga hann að lífinu okkar svo um farsælt framtíðar samband sé að ræða. Við tökum hvolpinn heim á föstudegi, helgin líður eins og draumur með litla krúttinu og svo er kominn mánudagur og venjulegt líf hefst á ný og við þurfum að fara til vinnu og hvað á að gera við hvolpinn?

Ok þetta er svona ýkta dæmið. En ég tók sem sagt hana Pílu til mín 4 mánaða gamla en hún verður einungis hjá mér um skamman tíma því hún er að fara til Íslands í sporhundaþjálfun hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Hér er saga sporhundastarfs Björgunarsveitar Hafnarfjarðar og ferðlag mitt til Madrid að hitta hundaflutningsaðila sem flutti Pílu frá Ungverjalandi.

Fyrst um sinn lék allt í lyndi, hún var bara lítið krútt sem þurfti að aðlagast nýrri fjölskyldu og aðstæðum. Aðeins smeyk eftir ferðalagið sitt, þurfti að aðlagast bílnum aftur en almennt voða góð. Svo byrjaði hún að vaxa og með hverjum deginum bætti hún á sig hæð og þyngd og ORKU. Hún varð uppátækjasamari og þurfti lengri tíma úti við að skoða, rannsaka og upplifa. Hún glímdi við smá niðurgang svo við þurftum að spá og spekúlera í mataræði og álagi því að hluta til var það vegna stress. Hún er, tja til að orða það pent, “fingralöng” og stelur harla óvenjulegum hlutum miðað við hvolp: grilltangir, skæri, hnífar, kaffibollar, FARSÍMAR, tölvumýs, sólgleraugu (búin að ná og skemma 3 stk), hárburstar, andlitsgrímur margnota og einnota, bananaknippi, penslar, hitamælar, lúsakambar, blómapottar (helst postulíns), plantan úr pottinum auðvitað, þvottur hvort sem er hreinn eða óhreinn, uppþvottaburstar, skyrdollur … já og svo mætti lengi telja. Hún spangólar á meðan eldað er hvort sem hún er svöng eða ekki. En eitt má hún eiga skuldlaust, ef maður segir henni að fara í búrið að sofa gerir hún það steinþegjandi og hljóðalaust og kvartar aldrei undan því, hún geltir ekki né spangólar þegar ein heima og er alveg sátt þegar við förum.

Til að flækja málin smá þá kom loks að okkur að fá okkar eigin hvolp fyrir fjölskylduna, við vorum á biðlista hjá ræktanda eftir álitlegri tík að minni forskrift og allt í einu var komið að því að taka hana heim. Á heimilinu eru því núna 2 hvolpar, með 2 mánaða aldursbili og 11 ára gamall hundur (sem er ekki vel við hvolpa) auk kattarins auðvitað. Það er oft á tíðum heldur betur handagangur í öskjunni hjá okkur. Að minnsta kosti má ekki slaka mikið á inn á milli, rútínu þarf að halda alla 7 daga vikunnar til að mæta þörfum allra, halda geðheilsu húsmóðurinnar og til að tryggja að samskipti fjölskyldunnar gangi snuðrulaust fyrir sig.

Ég tók saman annað myndband þegar Píla var búin að vera fyrstu 2 mánuðina af 6 hjá mér, sem sýnir sum prakkarastrikin hennar vel og ég lýsi þeirri þjálfun sem ég hef verið beðin að koma að meðan á dvöl hennar stendur.  Hunda má ekki flytja til landsins nema eftir ákveðinn feril til að sanna að þeir beri ekki með sér smitsjúkdóma. Píla er því í hvolpaþjálfun, uppeldi og umönnun hjá mér á Spáni meðan við bíðum eftir grænu ljósi frá MAST, áætlað er að hún fari í janúar/febrúar. Þjálfun Pílu hjá mér felst aðallega í:

  • félagsmótun = að venja hana við börn og fólk, á ólíkum aldri og þroska, og önnur dýr – til þess að enginn trufli hana við vinnu í framtíðinni
  • umhverfisþjálfun = þar sem hún lærir að þekkja ólíka hluti í borgarumhverfinu, sjá og upplifa sem flest og vera óhrædd í öllum aðstæðum svo hún geti einbeitt sér að leitinni í framtíðinni, hvar og hvenær sem er
  • styrktarþjálfun fyrir hvolpa svo hún sé sterk og heilbrigð og tilbúin að hefja sporaþjálfun strax að lokinni einangrun.

Seinna myndbandið er hér:

Ég set inn uppfærslur og sögur af prakkarastrikum Instagram og Facebook með fréttum af Pílu daglega og nota ég mest “stories” í þeim tilgangi. Endilega setjið á okkur subscribe eða like og fylgið þessari skemmtilegu sögu sem fylgir þessu mikilvæga verkefni. Ég er líka komin með enska síðu þar sem viðskiptavinir mínir hér úti eru flestir enskumælandi og heitir síðan k9-Kristín.  Endilega fylgið mér á báðum vígstöðvum því ég birti ekki sama efni á þessum tveim miðlum. Framundan hjá Pílu er aðgerð núna í nóvember því ætlunin er að gelda hana og jafnvel önnur í desember þar sem maginn á henni verður festur við magaveginn sem fyrirbyggjandi aðgerð við “bloat” eða magauppþembu sem veldur magasnúning og er ein helsta dánarorsök blóðhunda. Heimferð til Íslands er á áætlun í janúar eða febrúar 2021 og þangað til mun ég deila sögu hennar.

Björgunarsveit Hafnarfjarðar fagnar í ár 60 ára afmæli við þjálfun sporhunda við íslenskar aðstæður. Við erum stolt af sérhæfingunni okkar og kallmerki allra flokka sveitarinnar er SPORI. Við félagar Björgunarsveitar Hafnarfjarðar erum sjálfboðaliðar í störfum okkar og rekum starf okkar með fjáröflunum, ef þú vilt fjármagna sporhundaverkefnið okkar má finna bankareikning okkar hér: http://www.spori.is/styrkja-sveitina/

Sveitin selur jafnframt Neyðarkallinn í nóvember, sem í ár 2020 er einmitt hundamaður og er núna til sölu til fyrirtækja og fer í almenna sölu til almennings í febrúar 2021 (vegna c-19 faraldursins). Í byrjun desember selur sveitin lifandi jólatré og jólaóróa og fyrir áramótin flugelda og nýjungina rótarskot fyrir þá sem hafa ekki gaman af flugeldum.

Hvolpurinn okkar nýi, Luna litla Doberman drusla, er alveg sér kapítuli útaf fyrir sig og fær hún bara sér póst um sig og sín ævintýri síðar en fyrir þá sem vilja sjá hana þá gerði ég myndband um fyrstu 2 vikurnar okkar saman á ensku YouTube rásinni k9-Kristín.

Kveðja frá Spáni,

Kristín í hvolpa-kóma

 

© Kristín Sigmarsdóttir