25 Oct

Hvers vegna ættir þú að fara með hundinn þinn á grunnnámskeið? Það er auðvelt fyrir mig sem hundaþjálfara að setja mig á háan hest og þruma yfir alla sem vilja heyra að “Auðvitað eiga allir að fara með hvolpinn sinn á grunnnámskeið!!” og láta svo bara þar við sitja og rökstyðja ekkert mál mitt. Hér eru nokkrir punktar sem ég nota sem rök við spurningunni ” Grunnnámskeið, af hverju ætti ég að gera það?” og ástæða þess að ég tók saman þessa grein er einfaldlega sú að ég fæ þessa spurningu daglega, jafnvel oft á dag.

1) Samskiptabrú. Það flýtir fyrir að þú og hundurinn sem þú varst að fá þér myndið samskipta brú ykkar á milli. Þið talið í upphafi sitt hvort tungumálið (þú talar og hann tjáir sig með líkamsmáli). Á námskeiðinu eruð þið látnir æfa samskiptin ykkar aftur og aftur og sendir heim með heimaverkefni. Flest grunnnámskeið eru 8-10 vikur og þeir sem skrá sig taka því hvolpauppeldið af festu daglega í þann tíma. Þar lærið þið að skilja hvorn annan og búið til sameiginlegt tungumál sem þið notið í framtíðarsamskiptum.

2) Byrjum strax. Hvolpanámskeiðið flýtir fyrir af því eins og með öll námskeið þá tökum við hlutina föstum tökum … og einbeitum okkur að einhverjum ákveðnum hlutum varðandi uppeldið því við erum undir tímapressu. Fólki hættir til að: “æ hann er bara smábarn og þarf sinn tíma” en á meðan börnin okkar eru börn í 10 ár og eru skilningsvana fyrstu 1-2 árin, þá vex hvolpurinn úr grasi fyrstu 12-18 mánuðina cirka og er móttækilegur frá fyrsta degi – svo það þarf að nýta tímann vel og innprenta réttum skilaboðum og reglum … en ekki venja hann á ósiði og þurfa að leiðrétta það síðar. Forvörn er betri en lækning 🙂

3) Framkvæmd æfing. Þú lærir að framkvæma æfingar og skipanir rétt frá upphafi, færð útskýringu og sýnikennslu og æfir þig fyrir framan þjálfara og getur leitað eftir aðstoð samhliða sem þú prófar þig og hvolpinn þinn áfram. Með því að innprenta æfingarnar rétt í upphafi byggir þú sterkari grunn í hundinum þínum.

4) Endurtekningar. Á grunnnámskeiði ertu látin/n endurtaka hverja æfingu mörgum sinnum áður en þið eruð send heim til að halda áfram að endurtaka heima fyrir. Endurtekningar eru því margar og við ólíkar aðstæður þannig að verkefnið prentast betur inn í huga hvolpsins. Næsti tími á eftir fer oft í að aðlaga æfinguna og fínisera smáatriðin og svo er haldið áfram að endurtaka.

5) Grunnnámskeið er tiltölulega ódýrt námskeið, mig langar að segja fjárfesting en veit ekki í hvaða jarðveg það fellur. Kostnað námskeiðsins færðu síðar tilbaka með afslætti af hundaleyfisgjöldum, sem hjá flestum bæjarfélögum virkar út ævi hundsins. Það sem er enn betra er að mörg stéttarfélög styrkja fólk um hin ýmsu námskeið og hundanámskeiðið gæti fallið þar undir.

6) Hvolpanámskeið og framhaldsnámskeið eru frábær undirbúningur og að mínu mati nauðsynlegur undirbúningur fyrir veiðiþjálfun og alla vinnuþjálfun. Þið eruð líklegri til árangurs ef þið hafið gengið í takt frá degi eitt og því fyrr sem þið myndið samskiptabrú því sterkari verða böndin á milli ykkar og líklegra að þið getið unnið saman sem teymi í alvöru verkefnum.

7) Gullmolar. Samhliða öllum æfingum og í hverjum fyrirlestri hellir hundaþjálfari stöðugt úr upplýsingabrunni sínum og veitir yfirleitt meiri upplýsingar en minni. Þessar upplýsingar munu margar nýtast ykkur samdægurs og aðrar nýtast ykkur síðar á lífsleiðinni.

8) Þú munt læra svo miklu meira en bara að fá hundinn til að hlusta á þig og hlýða þér. Fóðrun, sjúkdómsgreining, almenn umhirða, vandamálalausnir, reglugerðir tengdar hundahaldi og svo miklu fleira er tekið fyrir á slíkum námskeiðum.

En stutta svarið er já ég mæli með grunnnámskeiðum fyrir alla hunda, unga sem gamla. Ef þetta svaraði ekki spurningu þinni um af hverju þú ættir að fara með hvolpinn þinn á grunnnámskeið þá mæli ég með að þú fáir að fylgjast með einum tíma hjá góðum hundaþjálfara.

 

 

© Kristín Sigmarsdóttir