22 Mar

Viltu fá þér hund? Eðlilegt er að fólk sem er að fá sér hvolp hugsi: Hvað þarf að undirbúa áður en hvolpurinn kemur heim?

Mín fyrsta ráðlegging er að undirbúa hvernig hund viljið þið hafa á heimilinu. Af hverju eruð þið að fá ykkur hund og hvernig ætlið þið að standa að uppeldinu svo hann verði þessi draumahundur sem þið hafið í huga að verði félagi ykkar næstu 12-15 árin. Þekkið þið þroskaferilinn sem hvolpur gengur í gegnum? Ætlið þið að fara á grunnnámskeið með hann eða er ætlunin að kenna honum allt sjálf. Eruð þið í húsnæði sem hentar vel til hundahalds og ef ekki hvernig er best að vinna í kringum það og gera það besta úr aðstæðum, þarf að huga að stærri bíl svo allir komist með í ferðalög framtíðarinnar. Hentar hundur vel inn í fjölskyldumynstrið ykkar og stundaskrá heimilisins. Hver ætlar að vera aðal umönnunaraðili dýrsins og hvert getið þið leitað eftir pössun ef þess þarf. Hver er kostnaður við rekstur hunds og passar það inn í fjármál heimilisins.

Flestir áttu eflaust von á lista yfir hluti sem þarf að kaupa og gera og græja áður en voffinn kemur heim en að mínu mati er það aukaatriði og hvaða starfsmaður í dýraverslun er eflaust fljótari og betri í því en ég. Mín fyrsta hugsun er aðbúnaður hundsins og umönnunin sem hann mun fá og lífið sem honum verður boðið uppá. Ég vil alls ekki halda því fram að fólk almennt fái sér hund án þess að hafa hugsað það alla leið. Þvert á móti held ég að allir eða allflestir hafi einmitt hugsað málið vel og vandlega og vegið kosti og galla áður en að endanleg ákvörðun var tekin. Síðan gerist lífið og það er einhvern veginn eins og ef mótbárurnar byrja þá sjái ekkert fyrir endann á þeim. Því miður vanmetur fólk einstaka sinnnum hversu mikið mál er að ala upp hund og þykir mér því afar miður þegar ég heyri “Prófaðu bara að passa einhvern hund og sjáðu hvort það eigi vel við þig og hvort þú getir fengið þér hund” … það er bara engan veginn sambærilegt og að taka svo 8-12 vikna gamlan hvolp inn á heimilið sitt og ætla að sjá um grunnuppeldi dýrsins næstu 18-24 mánuði.

Þá getum við aldrei séð fyrir ef veikindi koma upp eða ofnæmi eða annað sem lífið ákveður að bjóða okkur upp á. Að fá sér hund er langhlaup og það er ekki hægt að æfa sig eða prófa sig í því með því að taka nokkur hundruð metra spretti. Með öðrum orðum: Ekki passa hund nágrannans sem er 8 ára og smitast af hunda hamingjunni og fá þér svo 8 vikna hvolp og halda að þú fáir upp í hendurnar allt það sem tók nágrannann 8 ár að búa til/móta.
Auðvitað er það stór ákvörðun að fá sér hund og ég efast ekki um að fólk taki þá ákvörðun ekki nema að vel íhuguðu máli. Hundar lifa að meðaltali 10-13/15 ár eftir tegund, stærð og heilbrigði. Oft er talað um að stærri tegundir lifi skemur en smærri og elstu hundarnir sem ég man eftir að hafa heyrt um voru um 18 ára … en þeir voru þó ekki á Íslandi. Flestir fá sér hund til að hugsa um út ævi þeirra og því er ágætt að hugsa með sér, hvernig sé ég líf mitt fyrir mér næstu 15 árin meðan ég á þennan hund? Hversu öruggt er húsnæði mitt, vinnan mín og lífsmynstrið? Hentar minn lífstíll hundi og hentar hundur mínum lífsstíl?

Gríðarleg vinna felst í því að ala upp hvolp. Hvolpar eru full 2-3 ár að mótast í fullorðinn heilbrigðan einstakling. Til þess að þú fáir sem bestan, heilbrigðastan og traustan vin út úr því uppeldi þarf ákveðna festu, langlundar geð og þolinmæði auk staðfestu því hundar þrífast best í rútínu og staðfestu.
Ég efast ekki um að þú munir elska hundinn og hundurinn muni elska þig skilyrðislaust. Það eru hamingjusamir tímar framundan þegar búið er að taka ákvörðunina. En jafnframt verða það annasamir tímar. Hvolpar koma frá tíkinni móður sinni ósjálfbjarga og fæstir kunna þeir annað en að innbyrða fæðu og skila henni aftur, lífið er leikur og þeir geta ekki verið einir heima. Svo ábyrgðin er mikil sem þú tekur á þig, þú ert að taka við af móður hvolpsins og þarft að koma honum óvitanum til vits og ára. Þu ættir kannski að skoða myndbandið mitt 4 atriði sem þú munt hata við hvolpinn þinn.

Hreyfingin ekki má gleyma hreyfingunni 🙂 jú hundar þurfa mikla hreyfingu eða amk líkamlega útrás og þeir þurfa að fá útrás fyrir meðfædda hæfni til dæmis nota nefið. Ert þú í stakkbúinn að sinna þessum grunnþörfum? Fílar þú útivist í hvernig veðrum sem er? Hefurðu áhuga fyrir því að finna verkefni við hæfi hundsins, þú ættir kannski að spá í hvernig göngutúrnum er best varið? Og hér kemur sprengjan, ertu nokkuð yfir það hafinn að taka upp kúk í poka og koma honum í þar til gerð ruslaílát?

Ég er ekki að reyna að telja þig ofan af því að fá þér hund, þvert á móti finnst mér að allir ættu að eiga hund… allir sem gera sér grein fyrir vinnunni og ábyrgðinni. Ég þekki líka mörg ykkar og veit að stundum ætti fólk frekar að íhuga að fá sér fullorðinn hund frekar en hvolp – einfaldlega vegna þess að lífsmynstrið ykkar er ekki nógu sveigjanlegt til að gefa ykkur tíma í uppeldishlutverkið … það er nefnilega ekkert til sem heitir hvolpa-orlof eða hvolpa-veikindadagar. Ferðastu mikið og ertu mikið frá heimilinu? Hvar á þá hundurinn að vera á meðan? Hann mun fá ælupest og niðurgang, svefnlausar nætur þegar hann grætur sig í svefn fyrstu tvær næturnar, naga uppáhalds skóna þína og pissa á gólfið hjá mömmu þinni, stela sér súkkulaði (sem er lífshættulegt) og tæta amk eitt dagblað eða klósettpappírsrúllu… listinn er endalaus en hvolpaaugun og hvolpabumba er samt ómótstæðileg og ég veit það, trúðu mér.

Hundar þurfa fastan samastað. Ert þú í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði, ertu kannski ennþá heima hjá mömmu og pabba? Ekki að það skipti höfuð máli, en ég held þú ættir að hafa það bakvið eyrað að þið þurfið “báðir” öruggan samastað og húsaskjól og sífelldir flutningar fara oftast ekki vel í hunda. Svo öruggt húsaskjól er mikilvægt – eiginlega mikilvægast. Svo er það spurning hvar og hvernig býrð þú? Verða hundar leyfðir þar sem þú býrð geturðu aflað skriflegs leyfis hjá 2/3 eigenda í húsinu þínu. Ef þú ert ekki viss þá skaltu fara á stúfana og kanna það áður en þú færð þér hund og eitt ráð frá reyndum: þó einhver annar hafi leyfi í húsinu er ekki sjálfgefið að þú fáir það! Flettu upp fjöleignarhúsalögunum til að fræðast betur um þennan flokk. Ertu með sérgarð, garð eða svalir eða ertu týpan sem nennir að fara með hvolpinn 12-20x á sólarhring út að pissa fyrst um sinn og svo ca. 3x á dag það sem eftir er ævi hans? Ég er ekki að segja að fólk sem á hund verði að eiga garð, þvert á móti. En það er tímafrekt og tja segjum það bara líka smá leiðinlegt að fara svona oft út ef það er langt að fara… og kannski ólíklegt að það heppnist alltaf fyrst um sinn. Þá myndi ég spyrja mig spurninga eins og hvar er styst út og hvar viljum við að hann láti vita að hann þurfi út? Ágætt er að hugsa strax alla leið fram í tímann og hvar viljið þið að hann venji sig á að pissa …. eða ekki pissa 🙂 Leiguhúsnæði á Íslandi er ekki það sem ég myndi kalla “öruggt húsaskjól” og það þarf að hafa í huga að hundar slíta húsnæði að einhverju leyti (rispa parket, mögulega naga innréttingu eða klóra í hurðar … hey slysin gerast og sérstaklega með hvolpa sem halda jú að heimurinn sé eitt stórt nagdót). Stór hundur þarf meira pláss en lítill hundur, það er staðreynd. Svo er það hversu mikið pláss hefurðu uppá að bjóða fyrir dýrið? Hvað máttu missa marga fm?

Peningar og hundar. Tja við skulum segja að hundar borga sjaldnast með sér en að sama skapi er þetta vinur sem við setjum ekki verðmiða á. Það kostar að eiga hund það þarf að eiga ákveðinn grunnbúnað fyrir hann og hann þarf fæði og heilbrigðisþjónustu bæði almennt og ef hann veikist eða slasast (sem maður vonar alltaf að gerist ekki). Ég hef nú líka rekið mig á að hundar og smáir bílar eiga ekkert alltaf samleið en auðvitað hefur þörfin á bíl hjá hundaeigendum kannski minnkað eftir að við fengum leyfi til að taka þá með í strætó. Tengt þessu er hvar og hvernig vinnur þú? Hvað er vinnudagurinn langur? Hvar á hundurinn/hvolpurinn að vera á meðan? Hefurðu svigrúm til að taka þér launalaust hvolpa-orlof til að húsvenja hann og kenna honum að vera einn heima? Geturðu skotist heim og tékkað á honum yfir daginn? Geturðu kannski fengið hjálp frá fjölskyldu og vinum eða geturðu keypt þjónustuna út?

Þá er það klassíska spurningin hvað þarf ég að eiga þegar ég fæ mér hvolpinn? Hver er upphafskostnaðurinn … tja ég segi alltaf taumur, bæli, matarskálar … en auðvitað er það algjör einföldun og gerir svarið í raun lítið úr alvarleika málsins. Eins og kom fram ofar þá er starfsmaður í gæludýraverslun eflaust með tilbúinn lista. Þetta er það sem ég veit að fólk þarf að leggja út fyrir í upphafi:

  • Kaupverð hvolpsins, auðvitað getur það verið hvar sem er milli 0 kr og 400.000 kr. Leitaðu þér upplýsinga hjá einhverjum viðurkenndum aðila til dæmis HRFÍ áður en þú borgar stórar summur fyrir dýrið og að sama skapi skaltu kynna þér kaupsamninginn vel og heilsufarsskoðun dýralæknisins sem fylgir.
  • Hálsól – skylda skv. öllum reglugerðum um hundahald
  • Beisli – (valkvætt) afskaplega gott að venja hundinn á beisli, mæli með að fara með hann að máta
  • Taumur – sjá myndband mitt um taumaval
  • Matar- og vatnsskálar – til frá ódýrum plastskálum upp í rándýrar design keramikskálar (sjá video um matarskálar og hreinlæti)
  • Bæli – ég nota púða eða pullur, teppi er ekki nóg finnst mér (hef líka hirt ókeypis sófapullur sem á að henda). Gott að hafa í huga að hægt sé að þvo það eða utan af því.
  • Búr – (valkvætt) (ef þið ætlið að búrvenja) ég myndi eingöngu nota plastbúr eða sambærileg “búr til flutnings á dýrum” í bíl (ekki grindarbúr eða bráðabirgðabúrin úr efni. Heima myndi ég nota plastbúr (jafnvel sama búr og í bílnum) eða í litlum rýmum grindarbúr.
  • Leikföng – svo hægt sé að kenna hundinum að leika og hvað hann megi naga. Ég myndi byrja á kaðli, tuskubangsa og bolta.
  • Nagbein – fyrir hvolpa veljið mýkri nagbein síður þessi hörðu stóru
  • Hundamatur – veljið þurrmat með háu kjötinnihaldi og kjöt sem fyrsta innihaldsefni. Að velja rétta fóðrið er orðinn ansi mikill frumskógur… gangi ykkur vel.
  • Hundasjampó (jafnvel burstar/greiður) … sko þetta er ekki pjatt, hundar elska að velta sér upp úr ógeði það er mjög líklegt að þú þurfir að baða hann á einhverjum tímapunkti og þá mun ekkert endilega gefast tími til að stökkva út í búð til að redda því (eiginlega pottþétt ekki)

Svo er líklegt að fólk þurfi að leggja fljótlega út fyrir:

  • Bólusetning 2 og 3 þarf amk (flestir hvolpar koma með bólusetningu 1 og örmerki frá ræktanda … en það virðist þó ekki vera alveg gefið)
  • Ormahreinsun 1-2x fyrsta árið
  • Skráningargjald og svo árlegt hundaleyfisgjald (afsláttur er veittur af leyfisgjaldinu ef þið farið á viðurkennt hlýðninámskeið)
  • Hundauppeldi er seinlegt og mikið þolinmæðisverk. Það fær enginn fullkominn hvolp upp í hendurnar og þarf ekkert að hafa fyrir honum nokkurn tíma. Sá aðili annað hvort lýgur eða fékk sér tuskudýr eða uppstoppaðan hvolp. En hundaupeldi er jafnframt ein mest gefandi vinna sem þú getur lagt af stað í. Sá sem þjálfar hund með réttu hugarfari, jákvæðni og opnum hug, uppsker árangur sem er svo ótrúlega gefandi að ég á ekki til orð til að lýsa því. Sá sem fagnar öllum smáu sigrunum á leiðinni verðlaunar ekki bara hundinn sinn heldur líka sjálfan sig margfalt. Gerðu ráð fyrir að þurfa að kaupa einkatíma hjá hundaþjálfara ef upp koma vandamál.
  • Auðvitað mæli ég sterklega með grunnnámskeiði hjá hundaþjálfara (hægt að fá endurgreitt að hluta frá flestum stéttarfélögum og gefur svo umræddan afslátt af leyfisgjaldinu).
  • Svo er algengt að tryggja hunda svo þá þarf fyrst að fara til dýralæknis og fá tryggingaskoðun auk iðgjalds vegna Slysa- og sjúkdómatryggingar. Í dag held ég að þetta sé “no brainer” iðgjaldið sé örfáar þúsundkrónur, kannski 20-30þ á ári meðan óvæntur lækniskostnaður getur hlaupið á hundruðum þúsunda.

Já, og þetta var bara upphafskostnaðurinn svo eru ákveðinn fastur mánaðarlegur og árlegur kostnaður.

  • Hundamatur (alveg sama hvað þið gefið, matur kostar)
  • Nammi til að kenna hundinum góða siði (nema þið séuð hundahvíslarar eða galdramenn)
  • Nagbein til að lágmarka eyðileggingu og viðhalda tannheilsu (og lágmarka dýralæknakostnað)
  • Heilsufarsskoðun hjá dýralækni og ormahreinsun er árlegt (stundum innifalið í hundaleyfisgjaldi)
  • Hundaleyfisgjaldið sem var nefnt hér ofar er árlegt
  • Bólusetningar eru ýmist árlegt eða annað hvert ár eftir dýralæknum (annað hvert ár er nóg)
  • Gelding er eitthvað sem allir þurfa að skoða alvarlega og íhuga kosti og galla vel og vandlega
  • Svo vonar maður bara alltaf að ekki komi upp óvæntur kostnaður eins og veikindi, ofnæmi eða slys með tilheyrandi lækniskostnaði. Þarna koma tryggingarnar samt oft sterkar inn.
  • Hundahótel/pössun … alla veganna er þetta kostnaður hjá þeim sem ekki hafa fjölskyldu og vini sem geta passað endurgjaldslaust.

Allt í lagi, þú ert enn að lesa það þýðir að þú ert nokkuð staðráðinn í að fá þér hvolp/hund, eða ert þrjóskari en svo að láta nokkrar draugasögur gera þig fráhverfann 🙂 Næsta skref er að athuga hvort allir á heimilinu eru samþykkir og með í liði … þú ert ekki að fara að gera þetta einn og með aðra í stjórnarandstöðu. Þetta er samvinnuverkefni allra sem búa með hundinum en ábyrgðin getur ekki bara verið á einum. Mundu að spyrja liðið út í ofnæmi og reyndu kannski bara að prófa ykkur til dæmis með því að passa hund eða eitthvað sem líklegt er til að triggera ofnæmi.

Þá skaltu bara fara að undirbúa þig, er heimilið þitt hvolpvænt? Það er ágætt að hugsa um þetta svipað og að gera húsið barnvænt fyrir litla óvita. Hvað getur hann skemmt sem hann má ekki skemma (settu það bara í geymslu ef hann sýnir því áhuga) og á hverju getur hann slasað sig? Fyrstu dagarnir eiga að fara í að kynnast á jákvæðum nótum og byggja upp traust, það er ekki gott fyrir hvolp að læra að treysta þér ef þú eltir hann um allt og skammar hann fyrir að skoða nýja heimilið sitt (lesist smakka á).

Þá er komið að því að finna dýrið. Viltu hvolp eða hund? Ertu með ákveðna tegund í huga … og þá af hverju? Farðu í gegnum greinar um tegundina, merktu við allt sem þú telur henta þér í fari tegundarinnar og merktu svo við allt það sem þú telur ekki henta þér. Notaðu svo kalt mat er þetta virkilega tegund sem hentar þér og þínum lífsstíl? Ég skil fullkomlega að nú sitji margir og hugsi tegund? Ég vil bara hreinræktaðan heilbrigðan íslenskan blending, bara svona alvöru kokteil. Það er alveg frábært og ég skil það og styð heilshugar! En þú þarft samt að vera ábyrgur og hugsa hvað er hann líklegur til að verða stór og hvers konar hundur er líklegt að þetta sé og hentar hann þá mér og mínu mynstri? Ekki fá þér hund í sveit undan smalahundum ef hann á að vera einn heima 10-12 klst á dag daga vikunnar … það er bara stórslys í uppsiglingu á þeim bænum. Skiptir kyn hundsins þig máli og af hverju?

Spyrjið ræktandann uppbyggilegra spurninga sem hjálpa ykkur að vita hversu mikið má leggja á hvolpinn í upphafi:

  • Er hann ekki örugglega bílvanur? ef hann er það ekki þá skaltu reikna með að fara í rólegheitunum heim og hafa tímann til að stoppa ef hann sýnir stress eða vanlíðan. Ef þið hafið tímann fyrir ykkur, spyrjið tímanlega að þessu og biðjið ræktandann að venja hann rólega við bíl þar til þið sækið hann.
  • Er hann hræddur við eitthvað? Hefur hann umgengist bæði konur og menn, fólk á öllum aldri, hefur hann hitt fatlaðan einstakling?
  • Hefur hann hitt aðra hunda og aðrar tegundir hunda? Voru þau kynni jákvæð eða neikvæð?
  • Hvernig karakter er hann? Hvernig plummaði hann sig í hvolpahópnum og hvernig þroskaðist hann samanborið við systkin sín?
  • Er hann vanur hálsól og kann hann að ganga í taum?

Nú ertu eflaust búinn að velja þér hund/hvolp og ert mögulega bara að bíða eftir að hann verði nógu þroskaður til að fara frá tíkinni og flytja til þín. Notaðu nú tímann vel. Lestu þér til um ýmislegt varðandi hundahald og hundaumhirðu. Það er í nógu að snúast þegar hann er kominn og þá verður tíminn af skornum skammti fyrst um sinn. Notaðu því tímann núna og lestu þér til um: feldhirðu, klóaklippingar, umhverfisþjálfun, hvaða matur er hættulegur hundum, hvaða taumur er bestur, áttu að nota beisli eða hálsól, hvaða matur er bestur, hvar er dýralæknir næstur þér eða virtastur eða ódýrastur, eru hundaþjálfarar nálægt þér og hjá hverjum myndirðu vilja læra og hvenær er tímabært að fara á námskeið – geturðu sótt námskeið áður en þú færð þér hundinn, hefur hundurinn farið í bíl ef ekki hvernig á að venja hann á bíl, tannhirða er það eitthvað ofan á brauð, hvernig á að húsvenja hund, hvar ætlarðu að láta hann pissa/kúka, er húsnæðið hundvænt, er hverfið hundvænt, hvað má hann labba langt, hvar eru hundar bannaðir, hvaða árstími er þarftu að huga að flugeldum eða öðru slíku, hvenær má hann hitta aðra hunda og hvernig er best að kynna hann fyrir fjölskyldunni, hverjar eru regllur sveitarfélagsins varðandi hundahaldið, hvar og hvenær sæki ég um leyfið. Ég skal hætta hér, þú skilur eflaust sneiðina. Forvörn er betri en lækning.

Þá kemur einmitt að börnunum á heimilinu og hundinum. Fullorðna fólkið þarf að vera með skýrar reglur og vera sammála um þær, setjist því niður og ákveðið saman hvernig er draumahundurinn (sem þetta kríli á að verða að loknu ca. 2 ára þroskaferli)? Setjið svo reglurnar niður fyrir ykkur, börnin og hundinn. Þið ákveðið reglurnar í sameiningu fyrirfram og grípið svo inn í á réttum augnablikum (ef þess þarf) og þá geta allir lært að virða hvern annan, börnin hundinn og hundurinn börnin. Ég er hlynntari því að undirbúa börnin fyrirfram frekar en að koma með hundinn óvænt inn í líf þeirra án fyrirvara og vangavelta þar sem grunnreglurnar eru lagðar.

Gestaheimsóknir eru helsti óvinur nýrra hundaeigenda. Þar sem ekki er hægt að fjalla um það í stuttu máli hef ég skrifað sér grein um þann málaflokk og einnig fjallaði ég um það í myndbandi nýlega.

Algengt er að hvolpar séu til baka fyrstu sólarhringana á nýju heimili, með nýju fólki án hundafjölskyldunnar sinnar, en sækja oftast fljótt í sig veðrið og styrkjast andlega með hverjum deginum. Það er óöryggið, flutningarnir, breytingarnar, sem gerir hann órólegan og eftir því sem öryggið eykst kemur kraftur og þor. Hvolpar þurfa að taka útrásarhlaup til að losa orku og þvag en einkum saur, mikilvægt er að allir á heimilinu viti af þessu og hvernig eigi að bregðast við því þetta er sá tími sem mesta hættan er á ofæsing sem getur leitt til hvolpabits.

Til hamingju með að hafa komist í gegnum allan pistilinn. Hann er alltof langur eins og mér einni er lagið og samt er ég rétt byrjuð að snerta á málaflokknum.
Ég óska ykkur velfarnaðar með nýja lífsförunautinn og megi sambúð ykkar vera ánægjuleg og þroskandi fyrir alla aðila.

 

© Kristín Sigmarsdóttir