05 Oct

Ég tók upp myndband þegar hundurinn minn hann Flóki fékk torkennilegt sár ofan á kollinn. Húðin var bleik og bólgin eða þrútin og hárin ofan á þessum bletti voru öðruvísi en venjulega (þurrari og stóðu beint út eins og strá) mér datt í hug að þetta gætu verið húðbólga eða sýking í hárakirtlunum. Þegar ég fylgdist með sárinu versnaði það greinilega svo ég fór með hann til dýralæknis. Líklegast skýring hjá okkur var að hann hefði verið stunginn af geitungi eða rekið höfuðið í og rispað yfirborð húðarinnar, óhreinindi komist í rispuna og úr varð HOTSPOT eða húðsýking.

Ég er þekkt fyrir að vera íslensku fasisti og vil notast við íslensk góð og gild orð. Hins vegar þá hefur hotspot eða hotspots verið notað hér sem erlendis til að aðgreina þennan sérstaka húðkvilla. Ef hámenntuð dýralæknastéttin getur notað þessa ensku slettu yfir kvillann þá get ég eflaust vanið mig á það líka.

Hotspots er mjög algeng húðsýking í hundum og geta þeir fengið hana með því að rispa húð sína, þegar þeir eru rakaðir/snyrtir og hotspots getur verið afleiðing af húðbólgum í kjölfar ofnæmisviðbragða.

Leyf mér að segja þér í stuttu máli hvað dýralæknirinn ráðlagði í þessu myndbandi sem ég tók upp 2018 en gaf fyrst út 2020 :

Hotspots geta komið í flest öll gæludýr, bæði hunda og ketti, en hvað er það og hvernig á að meðhöndla hotspots?

Þú ert að klappa eða leika við hundinn þinn þegar þú tekur skyndilega eftir stóru sári, roðablett eða hrúðri á líkama þeirra. Sár sem var ekki þarna í gær og er næstum eins og það hafi birst á einni nóttu. Þetta er í daglegu tali kallað hotspot  – yfirborðssár á húð hundsins, húðbólga eða húðsýking.

Hotspots er stórt sár sem stækkar fljótt. Það verður gróft, rautt og blautt og þakið möttu hári. Það gæti verið vond lykt af því og hundurinn þinn mun líklega kveinka sér ef þú snertir það. Þú munt einnig taka eftir því að hundurinn þinn er pirraður í því og getur ekki látið það í friði, hann sleikir það stöðugt eða klórar í svæðið.

Það getur verið mjög ógnvekjandi eða óþægilegt ef þú hefur aldrei séð hotspots áður  – en góðu fréttirnar eru að þetta er tiltölulega einfalt í meðhöndlun – sérstaklega ef þú finnur blettinn snemma og hefur strax meðferð í samráði við dýralækni.

Hvað veldur hotspots?

Hotspots byrjar sem sár á yfirborði húðar sem í hefur komist sýking.

Hotspots sjást oft hjá hundum (og köttum) sem eru með þykkan og / eða síðan feld. Þetta gerist helst og oftast þegar hlýtt og rakt veður er. Slíkt veður myndar ákjósanleg skilyrði fyrir sýkingu að grassera í húð sem er kannski rök í lengri tíma (til dæmis af því einhver var að sleikja hana) sem getur valdið yfirborðskenndri húðsýkingu.

Sumir hundar fá oft hotspots meðan aðrir fá það aldrei, þá er húð þeirra hunda eða feldur ákjósanlegur fyrir þessar ákveðnu bakteríumyndun.

Hotspot getur komið sem afleiðing skordýrabits: mítils, geitungs, flær … í sambland við að hundurin sleikir svæðiið til að róa óþægindin.

Hotspots getur líka komið sem afleiðing af kláða: hundinn klæjar, klórar sér, rispar yfirborð húðarinnar og í kemst sýking EÐA hundinn klæjar, líður illa og sleikir á þeim stað stöðugt. Raki er alltaf við húðina og bakteríur ná að grassa, rispa kemur á yfirborðið af stöðugu áreitinu og sýking kemur upp.

Hotspots getur komið ef rakað er of nærri húð hundsins í snyrtingu eða fyrir aðgerð hjá dýralækni.

Meðferð við hot spots

Eins og kemur fram í myndbandinu mínu þá skaltu ekki hunsa hotspots eða bíða eftir að það grói að sjálfu sér – sýkingin versnar bara ef hún er ekki meðhöndluð. Ef sárið eða bletturinn er nýlegt og lítill þroti í því er mögulegt fyrir vana hundaeigendur að meðhöndla það heima – sjá myndbandið eða neðar. Ef húðskemmdin og sýkingin uppgötvast seint og er orðin stærri, dýpri og sársaukafyllri fyrir hundinn þá er best að láta dýralækninn veita meðferð strax og sárið uppgötvast.

Meðferð heima við minni/nýlegum hotspots

Ég vil taka það fram að ég leita alltaf til dýralæknis þó ég sé orðin reynslumikil í alls konar hundakvillum. Einfaldlega vegna þess að þekking mín er á yfirborðinu og ég vil ekki tefla heilsu hundsins míns í tvísýnu. Sýkingar geta verið erfiðar að berja niður ef þær fá að grassera og alls óvíst hvernig líkami hundsins bregst við. Á Íslandi búum við ekki við þann úxus að hafa dýralækni í hverju sveitarfélagi og því langar mig að deila með ykkur ráðunum en hringdu amk í þann dýralækni sem er þér næstur eða þú treystir best og berðu þetta undir hann áður en þú gerir nokkuð.

Ef þú ert ekki í nálægð við dýralækni þá eru þetta leiðbeiningarnar sem ég fékk með Flóka minn:

Þú þarft að hafa: bómull eða grisju, sáravökva og bakteríudrepandi krem, hundanammi

Byrjaðu á því að þvo og sótthreinsa á þér hendurnar og/eða notaðu hanska.

Næst þarf að raka svæðið – í tilfelli Flóka þurfti þess ekki, sárið var leiðinlega staðsett og við ákváðum að reyna einfalda meðferð og sleppa því að raka. Í staðinn var mér uppálagt að fylgjast MJÖG grannt með líðan hans og útliti sársins og koma strax með hann ef liturinn á því, áferðin eða útlitið breyttist.  Ástæða þess að mælt er með rakstri er til að losna við hárið af svæðinu, hleypa lofti að og gera því kleift að þorna. Köllum við það ekki að leyfa sárinu að anda.

Hreinsaðu sárið með klórhexidínlausn eða með Betadine – sára- og sótthreinsivökva sem ekki svíður undan (ekki nota spritt) og notaðu síðan bakteríudrepandi krem (ég notaði Fucidin sterakrem) á svæðið.

Athugaðu að svæðið er aumt og meðferðin gæti verið sársaukafull fyrir hundinn þinn svo vertu mild/-ur en hreinsaði sárið samt ákveðið. Vertu viðbúinn því að hundurinn hrökkvi við, færist undan og sýni einkenni þess að honum líði illa. Ef þú heldur að hundurinn þinn geti orðið hræddur og glefsað til þín farðu varlega, hafðu hann í taum svo hann geti ekki farið og íhugaðu að nota múl eða bittu heimatilbúinn múl utan um trýni hans. Flóki minn var rólegur allan tímann og það var eins og hann vissi að ég væri að laga óþægindin. Ég hafði líka nammi, training mix sem ég pantaði á www.dyrafodur.is, til að gefa honum á meðan og eftir meðferðina.

Ef þér tekst að hreinsa og bera á sárið með góðum árangri heima en hundurinn þinn heldur áfram að sleikja svæðið gæti hann þurft að vera með skerm til að koma í veg fyrir að hann sé stöðugt að sleikja og erta upp sárið. Ef þú sérð þegar þú byrjar að þú getur ekki meðhöndlað sárið almennilega heima vegna þess að það er of sársaukafullt fyrir hundinn og hann er viðskotaillur eða vegna þess að þú sérð að sárið er of stórt þegar þú hreinsar frá því þá skaltu fara með hundinn beinustu leið til dýralæknis til að fá faglega meðferð. Því fyrr sem þú ferð þeim mun betra fyrir ykkur bæði, hann fær skjótar bata og kostnaður þinn verður í lágmarki.

Ekki er ráðlagt að gefa dýrinu verkjastillandi lyf  nema dýralæknirinn hafi skrifað upp á það, mannalyf eru oftast ekki góð fyrir dýr og geta valdið alvarlegum aukaverkunum og fylgikvillum.

Meðferð hjá dýralækni vegna stærri eða sársaukafyllri hotspots

Oft þarf að gefa hundum róandi lyf til að hægt sé að meðhöndla sár á þeim: skoða, raka, hreinsa og meðhöndla. Dýralæknirinn mun líklega gefa róandi lyf, síðan hreinsa sárið og bera bakteríudrepandi krem með kortisón á sárið og svæðið í kring. Í slæmum tilfellum gefa þeir líka oft sterasprautur.

Í flestum tilfellum mæla dýralæknar með skerm til að hundurinn láti sárið og svæðið í friði, líklega mun hann gefa hundinum verkjastillandi lyf annað hvort pillu eða sprautu, og senda þig með bólgueyðandi lyf til að taka heima næstu daga, þá er mjög líklegt að slæm hotspots þurfi sýklalyfjakúr.

Get ég (og þá hvernig) komið í veg fyrir hotspots hjá hundinum mínum?

Suma hunda má raka reglulega til að minnka umstang og viðhald og minnka líkur á hotspots. Veðurfarið á Íslandi er þí sjaldan svo heitt og rakt eins og erlendis þar sem kjörskilyrði myndast. En vissulega er oft rakt í veðri á eyjunni okkar og svo er mjög heitt í húsunum hjá okkur, heitara en í öðrum löndum. Auðveldast er að hafa feldinn á hundum snöggan á hlýju og röku mánuðum ársins. Þetta tryggir að húð þeirra getur andað og verið þurr og hjálpað til við að koma í veg fyrir sýkingar og hotspots. Að auki þýðir styttri feldur á sumrin hamingjusamari hund (og minna böðun og þrif fyrir okkur eigendurna).

Vanir hundasnyrtar eru ólíklegri til að raka of langt ofan í feldinn til að valda þeim skaða og ef þú ætlar að raka hundinn þinn sjálf/ur fyrir sumarið þá skaltu fara varlega.

Fyrir ofnæmishunda er lítið hægt að gera annað en að passa upp á ofnæmið – ofnæmiseinkenni koma svo afskaplega oft fram í húð og feldi og þá myndast kjöraðstæður fyrir hotspots.

Ég vona að þetta gagnist þér sem upplýsingar og fræðslumoli. Ég ráðlegg þér sem endra nær að fara til dýralæknis snemma ef þú heldur að hundurinn þinn sé veikur eða meiddur.

Mig langar að minnast Flóka örstutt, sem kemur fyrir í myndbandinu, en það var tekið upp sumarið 2018. Flóki minn var fjölskylduhundurinn okkar, 2013-2019, hann ól upp stelpurnar mínar, passaði þær eins og augasteinana sína og kenndi þeim samkennd, virðingu og hlýju. Flóki féll frá sumarið 2019 í kjölfar óheppilegs slyss, hann sem var á leið í ævintýri og búferlaflutninga með okkur til Spánar. Fjölskylda mín saknar hans á hverjum degi og bara það að gefa út myndbandið var bæði sárt og erfitt og kallaði fram tár en jafnframt góðar minningar og skemmtilegar sögur af kallinum okkar. Við vitum að hann vakir yfir okkur uppi á skýjunum og ég er ekki í nokkrum vafa með hvaða hundategund verður fyrir valinu hjá dætrum mínum þegar þær eldast. Flóki var einstakur hundur með einstakt hjartalag sem kenndi mér margt um hundaatferli og skapgerð.

 

© Kristín Sigmarsdóttir